Photo

Edduverðlaun 2015
1 note
·
View note
Text
Borgríki 2 - Blóð hraustra manna valin til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam

Borgríki 2 – Blóð hraustra manna, nýjasta kvikmynd Ólafs de Fleur Jóhannessonar, hefur verið valin til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam í Hollandi. Um er að ræða alþjóðlega frumsýningu myndarinnar þar sem þetta verður fyrsta hátíðin sem myndin mun taka þátt á eftir að hafa verið frumsýnd þann 17. október sl. í Háskólabíói. Hátíðin mun fara fram frá 21. janúar til 1. febrúar. Valið á Rotterdam hátíðina er mikill heiður, enda er hátíðin ein fárra svokallaðra „A“ kvikmyndahátíða í heiminum.
Myndin er sjálfstætt framhald spennumyndarinnar Borgríki sem kom út árið 2011 og segir frá Hannesi, metnaðarfullum yfirmanni innra eftirlits lögreglunnar, sem ákveður að rannsaka Margeir, spilltan yfirmann í fíkniefnadeild lögreglunnar með það fyrir augum að ráða einnig niðurlögum stórra glæpasamtaka.
Borgríki 2 – Blóði hraustra manna er leikstýrt af Ólafi de Fleur Jóhannessyni en hann skrifar einnig handritið að myndinni ásamt Hrafnkeli Stefánssyni. Myndin er framleidd af Kristínu Andreu Þórðardóttur, Ólafi de Fleur Jóhannessyni og Ragnari Santos fyrir Poppoli Kvikmyndir. Í aðalhlutverkum eru Darri Ingólfsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Sigurður Sigurjónsson, Zlatko Krickic og Hilmir Snær Guðnason.
Sölufyrirtækið Celluloid Dreams, sem staðsett er í Frakklandi, tryggði sér alheimsrétt á myndinni árið 2012 í kjölfar velgengni fyrri myndarinnar. Celluloid Dreams annast alla sölu á á erlendum vettvangi í samstarfi við kanadískt sölufyrirtæki sem heitir Mongrel International. Nú þegar hefur myndin verið seld til Synergy Cinema í Frakklandi og Mónakó og Alcine Terran í Japan.
Fyrri myndin, Borgríki, hefur verið seld til 42 landa og er í endurgerðarferli í Bandaríkjunum
3 notes
·
View notes
Text
BORGRÍKI 2 | KOMIN Á DVD & VOD LEIGUR

Borgríki 2 – Blóð hraustra manna er nú komin út á DVD og fæst í helstu verslunum en einnig VOD-leigum heima í stofu. Hægt er að velja íslenskan texta fyrir heyrnaskerta í valmynd og henni fylgir stiklan og gerð myndarinnar. Við erum stolt af því að kl��ra árið með þessarri útgáfu og þökkum viðtökurnar á árinu. Góða skemmtun og gleðilega hátíð.
1 note
·
View note
Video
youtube
BORGRÍKI 2 - BLÓÐ HRAUSTRA MANNA Trailer
0 notes
Photo
Borgríki 2 - Blóð Hraustra Manna
Myndin segir frá Hannesi, metnaðarfullum yfirmanni innra eftirlits lögreglunnar. Til að ráða niðurlögum stórra glæpasamtaka ákveður hann að rannsaka Margeir, spilltan yfirmann í fíkniefnadeild lögreglunnar, eftir að hafa fengið ábendingu frá Gunnari, fyrrum glæpaforingja, sem situr í fangelsi. Hannes afræður að koma ungri lögreglukonu, Andreu, í stöðu njósnara á ferðum Margeirs. Aðgerðirnar leiða Hannes á hálan ís þar sem erfitt reynist að halda skýru höfði eftir því sem hann kemst nær takmarki sínu, að ná bæði Margeiri og erlenda glæpaforingjanum.
Leikstjóri myndarinnar er Olaf de Fleur og skrifar hann handritið ásamt Hrafnkeli Stefánssyni. Í helstu hlutverkum eru Darri Ingólfsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Zlatko Krickic, Sigurður Sigurjónsson og Hilmir Snær Guðnason. Framleiðendur eru Kristín Andrea Þórðardóttir og Ragnar Santos.
Borgríki II - Blóð hraustra manna verður frumsýnd þann 17. október næstkomandi.
#Poppoli#Olaf de Fleur#Hrafnkell Stefánsson#Darri Ingolfsson#Ágústa Eva Erlendsdóttir#Ingvar E. Sigurðsson#Zlatko Krickic#Sigurður Sigurjónsson#Hilmir Snær Guðnason#Kristín Andrea Þórðardóttir#Ragnar Santos#kvikmynd#xs
0 notes
Photo

BORGRÍKI 2 - BLÓÐ HRAUSTRA MANNA
#Borgríki 2#Borgríki 2 Blóð Hraustra Manna#Poppoli#Darri Ingolfsson#Ágústa Eva Erlendsdóttir#Ingvar E. Sigurðsson#Zlatko Krickic#Sigurður Sigurjónsson#Hilmir Snær Guðnason#Platkat#xs
1 note
·
View note
Text
MAÐKAR Í BLÓÐUGRI REFSKÁK | Morgunblaðið

Gagnrýni | Kvikmyndir | Morgunblaðið | (dagsetning á dómi, 18. okt 2014)
Laugarásbíó, Smárabíó, Háskólabíó, Borgarbíó, Selfossbíó, Ísafjarðarbíó og Bíóhöllin Akranesi.
BORGRÍKI 2: BLÓÐ HRAUSTRA MANNA
★★★★
Leikstjórn: Ólafur de Fleur. Handrit: Ólafur de Fleur og Hrafnkell Stefánsson. Aðalhlutverk: Darri Ingólfsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Sigurður Sigurjónsson, Zlatko Krickic og Hilmir Snær Guðnason. 95 min. Ísland, 2014.
Leikstjóranum Ólafi de Fleur og meðhandritshöfundi hans Hrafnkeli Stefánssyni tekst ágætlega að gera þétta og nokkuð raunsæja löggumynd. Persónur myndarinnar hafa hver sinn djöful að draga, þær eru hvorki ófeigar né ofurmannlegar og því er myndin laus við hetjublæti. Persónusköpunin er heildstæð og áhorfandinn skilur hegðun og forsendur allra aðalpersóna hvort sem honum geðjast að þeim eður ei. Persónurnar eru enn fremur samkvæmar sjálfum sér og afdrif þeirra og örlög eru mátulega ófyrirsjáanleg. Þær virðast allar vera peð í spilltu valdatafli annarra og víða er maðkur í mysunni enda glæpaheimurinn fjandsamleg lögleysa.
Samtöl myndarinn eru nokkuð lipur og leikurinn framúrskarandi. Darri og Zlatko ljá sínum persónum svo mikla tilfinningadýpt að þær verða ódauðlegar í minningu áhorfenda. Siggi Sigurjóns og Ingvar E. eru engu síðri enda sannkölluð leikarakamelljón sem geta brugðið sér í sérlega einstök og eftirminnilega gervi. Ágústa Eva og Hilmir Snær eru einning feiknasterk en persónur þeirra virðast meira ætlaðar til að styrkja hinar fjórar. Aukaleikarar á borð við Þorbjörgu Helgu, Elvu Ósk, J.J. Field og Leo Sankovic setja einnig svip á myndina ásamt bardagahetjunni Jón Viðari sem virkar þó fremur sem hvati á atburðarásina en eiginleg persóna.
Söguþráðurinn byggist á starfsemi ísensku lögreglunnar og myrku hyldýpi undirheimanna en við hann er spunnið frjálslega svo er úr verður glettinn leikur með mörk veruleika og skáldskapar. Atburðarásin er þétt með slungnum svikamylluflækjum þar sem frumskógarlögmálið um að eins manns dauði sé annars brauð virðist allsráðandi. Frásögnin er línuleg en þó er stokkið örlítið til í tíma og rúmi svo áhorfendur fá að skyggnast inn í atburði sem gerast samtímis og ólíkum rýmum og þeir vita því töluvert meira um yfirvofandi hættur en persónur myndarinnar hver um sig.
Hjördís Stefánsdóttir
#Borgríki 2#Borgríki 2 Blóð Hraustra Manna#Poppoli#kvikmyndagagnrýni#Morgunblaðið#Hjördís Stefánsdóttir#xs
0 notes
Video
vimeo
Borgríki 2 - Blóð Hraustra Manna Teaser 2
0 notes
Photo






Borgríki 2 - Blóð Hraustra Manna Karakter Plaköt
#Poppoli#Borgríki 2#Borgríki 2 Blóð Hraustra Manna#Karakter Platköt#leikarar#Darri Ingolfsson#Ágústa Eva Erlendsdóttir#Ingvar E. Sigurðsson#Zlatko Krickic#Sigurður Sigurjónsson#Hilmir Snær Guðnason#xs
0 notes
Video
vimeo
Borgríki 2 - Blóð Hraustra Manna Teaser 1
0 notes
Text
Hollywood-stjarna í Borgríki II

J.J. Feild, sem lék í Hollywood-myndinni Captain America, var staddur hér á landi í gær til að leika í Borgríki II - Blóð hraustra manna, sem er framhald glæpamyndarinnar Borgríkis sem kom út 2011.
Aðspurð segir hún Feild vera vin Ingvars E. Sigurðssonar, sem leikur eitt aðalhlutverkanna í myndinni. „Þeir hafa þekkst í tíu ár og hann langaði virkilega að koma til landsins og leika með okkur.“
Feild og Ingvar léku einmitt saman í myndinni K-19: The Widowmaker sem kom út 2002 með Harrison Ford í aðalhlutverki.
Tökur á Borgríki II- Blóð hraustra manna hófust um miðjan júlí og lýkur 22. september. Þær hafa að mestu farið fram á höfuborgarsvæðinu. „Þetta er búið að ganga virkilega vel. Það hafa verið miklar áskoranir en einhvern veginn hefur þetta náð að ganga upp.“
Frumsýning er fyrirhuguð haustið 2014.
24 notes
·
View notes
Photo







Borgríki 2 - Blóð Hraustra Manna Stillur
#Poppoli#Borgríki 2#Borgríki 2 Blóð Hraustra Manna#stillur#Ágústa Eva Erlendsdóttir#Darri Ingolfsson#Ingvar E. Sigurðsson#Zlatko Krickic#Sigurður Sigurjónsson#Hilmir Snær Guðnason#xs
0 notes
Text
„Lífið er of stutt til að spara sig” – Viðtal við Ólaf de Fleur leikstjóra Borgríkis II

Ég byrjaði á því að spyrja Óla hvenær áhugi hans á kvikmyndagerð kviknaði enda klassísk fyrsta spurning til kvikmyndagerðarmanna. „Ég ólst upp í Búðardal og þegar ég var lítill þá keypti mamma handa mér litla vél sem gat sýnt stuttar Disney myndir. Þetta vakti mikla lukku hjá mér og krakkarnir í hverfinu komu til þess að horfa á þessar litlu myndir,” segir Óli þegar hann rifjar upp fyrstu minninguna sem tengist kvikmyndum. „Ég fékk þó ekki löngunina til að gera kvikmyndir fyrr en seinna á lífsleiðinni. Sú löngun vaknaði út af svona low point í lífinu. Ég var þá í kringum tvítugt og vissi ekki alveg hvað ég vildi gera. En málið er að þegar maður er langt niðri, þunglyndur, þá sér maður oft kjarnann í sjálfum sér og hvað maður vill verða. Þá vaknar líka löngun eftir tjáningu og að skapa.”
Eftir framhaldsskóla vildi Óli starfa við kvikmyndagerð og á þeim tíma var ekki neinn kvikmyndaskóli. „Ég hugsaði bara hvar eru kvikmyndatökuvélar, þær hljóta að vera í sjónvarpinu og ég hringdi í RÚV. Þar fékk ég samband við tökumann, Pál Reynisson, sem kenndi mér. Það var svona fyrsti skólinn. Svo fór ég að gera lélegar stuttmyndir og svo leigði ég vél og gerði litla heimildamynd sem hét Leiðin til andlegs þroska, mjög stórt nafn,” segir Óli hlæjandi. En hann fór á sínum tíma í Búnaðarbankann árið 1995 til að fá lán til að gera myndina. „Þú getur rétt ímyndað þér að vera tuttugu og tveggja ára gamall og reyna að sannfæra útibússtjóra um að veita mér þrjúhundruð þúsund króna lán til að gera mynd sem hét Leiðin til andlegs þroska. En þetta var kall sem var vanur öllu og hann lét mig fá lán. Ég held að Stöð 2 hafi keypt myndina á sjötíu þúsund krónur. Þannig að ég var með major skuld á bakinu,” segir Óli.
Hann fékk síðan starf hjá kvikmyndafyrirtæki þar sem hann fann fyrir góða lærifeður, Guðmund Arinbjarnarson og Helga Sverrisson. Einnig kynntist hann Þorvaldi Þorsteinssyni listamanni, svo vann hann við að klippa myndir Ólafs Sveinssonar, Braggabúa og Hlemm. Allir hjálpuðu honum að þroskast sem kvikmyndagerðarmaður og segir Ólafur að það sé mikilvægt að finna góða mentora á lífsleiðinni.
Óli fór síðan til Los Angeles til að skoða kvikmyndaskóla en þar áttaði hann sig á því að hann kunni grunninn í kvikmyndagerð og í stað þess að eyða háum fjárhæðum í skóla snéri hann aftur til Íslands og stofnaði kvikmyndafyrirtækið Poppoli. „Ég stofna það með yngri bróður mínum, Benedikt, og Ragnari Santos. Við setjum svo tvær myndir í gang sem voru Africa United og Blindsker sem fjallaði um Bubba Morthens,” segir Óli en hann hefur gert fjölda mynda í gegnum tíðina og komið að framleiðslu annarra mynda.
Borgríki II er stærri í sniðum en fyrri myndin og segir Óli að verkefnið hafi verið krefjandi. Ég spyr hann út í ferlið við gerð svona myndar. „Ég og Hrafnkell Stefánsson skrifum handritið og spilum bara borðtennis, köstum hugmyndum á milli okkar. Ég þarf samt að finna það að ég hafi eitthvað að segja. Ég get verið með einhverja tilfinningu sem ég get ekki einu sinni útskýrt fyrir sjálfum mér en þá get ég haft þá tilfinningu til hliðar og sagt hana í gegnum t.d. Borgríki og svo reyni ég að miðla þessari tilfinningu í gegnum söguna. En handritið tók langan tíma og Hrafnkell skrifaði heilt handrit einn og svo tek ég við því og svo vinnum við með það,” segir Óli og ég spyr hann nánar út í undirbúninginn. „Við storyboard´um sumt ef það er mjög flókið og þessi mynd var mjög flókin, vægast sagt. Miklu stærri en sú fyrri, hærra budget og miklu meira af fólki. Þetta var mjög stressandi en skemmtilegt.” Hann segir að það sé skemmtilegt að vinna með sömu leikurunum því þeir þekki persónur sínar. „Þeir vita nákvæmlega hverjir þeir eru og leikararnir geta þá unnið betur með persónusköpunina. Við æfum með leikurum en svo er ég mikið í því að finna út úr aðstæðum á setti, sérstaklega í tilfinningasenum. Þú leitar og leitar með leikaranum, pælir og pælir. En þetta verður aldrei excel skjal. Leikarinn þarf að vera viðkvæmur og opinn en samt svo konfident. Þannig að ég legg mjög mikla ábyrgð á leikarann,” segir Óli.
Ég spyr Óla nánar út í vinnu með stafræna formið. En fyrri myndin um Borgríki var öll skotin á Canon 5D sem þá þótti nýlunda. „Myndin var með þeim allra fyrstu sem skotin var á Canon 5D,” bendir Óli á og telur að hún hafi jafnvel verið með þeim fyrstu í Evrópu. „Við fórum í samstarf með Halldóri Garðarssyni og Jóni Camson hjá Nýherja og þeir studdu vel við bakið á okkur. En ef við ræðum aðeins kvikmyndatökuna þá er það óvenjulegt við þessar myndir að við erum með tvo tökumenn, þá Bjarna Felix og Gunnar Heiðar. Þeir vinna 50/50 og hanna útlitið á þessum myndum, pæla í lýsingu, römmum og takti,” segir Óli og bendir jafnframt á að þetta samstarf kvikmyndatökumannanna sé gott dæmi um það hve margir komi að svona mynd. „Ég áttaði mig á því mjög snemma að það skiptir engu máli hvernig ramminn er, fólk spáir oft í því hvort hann sé fallegur. Þegar ég gerði Queen Raquela þá spáði ég ekkert í rammanum heldur í karakternum. Því það er enginn kraftur í ramma nema það sé karakter fyrir framan vélina,” segir Óli og bendir á að kvikmyndatökumenn þurfi að skilja söguna. „Það er ekki fegurð sem dómínerar rammann, það sem skiptir máli er að kvikmyndatökumennirnir skilji handritið og hvað sé að gerast í atriðinu. Þá geta menn farið að velja rétta rammann.”
Staða kvikmyndasjóðs hefur verið mikið í umræðunni eftir að ný ríkisstjórn tók til starfa og ég spyr Óla um hans skoðun á niðurskurði til kvikmyndasjóðs. „Þetta er bara sama gamla sagan. Listir eru oft skornar niður við ríkisstjórnarskipti og menning yfir höfuð, ekki bara kvikmyndagerð. Það þarf menningu til að spegla samfélagið og það hefur með heilbrigði að gera. Þetta er bara kommon sens, ef þú vilt hafa heilbrigt samfélag þá þarf ákveðin prósenta að fara í þennan menningargeira.”
Undir lokin spyr ég Óla hvort hann hafi einhver góð ráð fyrir unga kvikmyndagerðarmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í bransanum. „Málið er að hver og einn hefur sinn veg og hver og einn þarf að átta sig á þyngdaraflinu í þessum heimi. Þú verður fyrst að vinna ákveðna heimavinnu. Sú heimavinna getur falist í því að fara í skóla eða vinna eitt job, gera stuttmynd eða eitthvað slíkt. Þú þarft samt fyrst að læra að búa til mynd ókeypis. Þú getur aldrei gert neitt einn heldur,” segir Óli og leggur áherslu á að ungt kvikmyndagerðarfólk verði að þora að gera hlutina og gera mistök. „Ef þig langar að byrja í kvikmyndagerð og vilt ekki fara á hausinn þá er bara að redda tökuvél sem er lítið mál í dag og gera heimildamynd sem kostar ekki neitt og ákveða hvað þú vilt segja með myndinni. Það samt skiptir engu máli hvernig myndin verður, aðal málið er að þú áttir þig á hversu svakalega erfitt þetta er en það tekur tíma að átta sig á tungumáli kvikmyndanna. Fólk er líka oft mjög óþolinmótt. Þetta tekur tíma og þú verður að þora. Hæfileiki þinn til að ná árangri veltur á hugrekkinu þínu til að þora að líta út eins og hálfviti. Ef þú þorir ekki að drífa þig af stað þá gerist ekki neitt. Lífið er of stutt til að spara sig,” segir Óli að lokum.
Það er alltaf jafn gefandi að ræða við skapandi fólk eins og Óla sem hefur gríðarlega mikla ástríðu fyrir kvikmyndagerð. Það kostar nefnilega blóð, svita og tár að gera kvikmyndir á Íslandi og við skulum vera þakklát fyrir að það eru kvikmyndagerðarmenn þarna úti eins og Óli sem tjá spegilmynd þjóðarinnar í gegnum linsuna.
#Olaf de Fleur#Borgríki 2#Borgríki 2 Blóð Hraustra Manna#Hrafnkell Stefánsson#Nörd Norðursins#Viðtal#xs
0 notes
Text
Borgríki (2011)

Hér gefst tækifæri á að horfa á fyrri myndina Borgríki 2011 fyrir þá sem vilja.
0 notes
Text
Gaf henni blóðnasir á fyrstu æfingu

„Það er samt afmælisdagurinn. Þetta er ekki ég sko. Við Gunni (innskot.bl Nelson) eigum sama afmælisdag og erum eins. Hann er eiginlega verri en ég með að mæta á réttum tíma. En veistu hvað ég gat gert í gær? Ég gat deilt 30 þúsund í fimm hluta. Bara í huganum. En já, ég er með mjög lata heilastarfsemi þegar kemur að stærðfræði,“ segir leikkonan og skellihlær.
Það útskýrir tuttugu mínútna seinkun viðtalsins. Við sitjum í setustofu í anddyri Mjölnis. Bardagaklúbbsins sem þjóðin hefur tekið opnum örmum á síðustu misserum og er annað heimili skötuhjúanna. Það er rólegt í Mjölni svona um miðjan daginn, lognið á undan storminum því seinnipartinn fyllist allt af hreyfingarþyrstu fólki á öllum aldri sem er tilbúið að púla í bardagaumhverfinu.
Meitt sig meira á leiksviðinu Parið á saman soninn Þorleif Óðin Jónsson, sem er þriggja ára gamall, og býr fjölskyldan á Bárugötunni. Það var í raun Mjölnir sem kom Ágústu Evu og Jóni Viðari saman, já og kvikmyndin Borgríki þar sem ástin kviknaði á tökustað. Nú endurtekur parið leikinn í myndinni Borgríki II – Blóð hraustra manna, sem frumsýnd verður í október.
Jón Viðar er formaður Mjölnis og í þjálfarateymi Gunnars Nelson bardagakappa, svo eitthvað sé nefnt. Ágústu Evu þarf vart að kynna fyrir landsmönnum. Hún kom sér allrækilega á kortið með karakternum Silvíu Nótt sem fór með leikkonuna alla leið í Eurovision árið 2006 með eftirminnilegum hætti. Ágústa hefur nú lagt Silvíu Nótt á hilluna, í bili að minnsta kosti, en undanfarin ár hefur leiksviðið átt hug hennar allan.
„Systir mín dró Ágústu á æfingu hjá mér árið 2008 og hún stóð sig ágætlega. Hún fór reyndar út með blóðnasir á báðum. Ég kýldi hana óvart,“ segir Jón Viðar og þau skellihlæja bæði. „Hún hljóp inn á baðið og kom út með pappír í nösunum. En hélt áfram samt."
„Já, alveg rétt. Hann áttar sig stundum ekki alveg á hvað hann er sterkur. Annars hef ég meitt mig meira á leiksviðinu en í bardagaíþróttum. Ég nefbrotnað, brotið tönn og allur fjandinn komið fyrir mig í leiklistinni en ekkert komið fyrir mig hérna í Mjölni. Ég er samt þannig að ég prufa allt, svona hvirfilbylur í hausnum, og frekar óhrædd að eðlisfari. Læt bara vaða. Til dæmis gerði ég öll áhættuatriðin mín sjálf í Borgríki II,“ segir Ágústa Eva.
„Nema þú ert lofthrædd,“ bætir Jón Viðar við. „Já, ég er mjög lofthrædd sem kom sér ekki vel þegar ég gerði eitt atriði í nýju myndinni. Ég vil ekki gefa of mikið upp um atriðið en mér stóð alls ekki á sama á einum tímapunkti í þessum tökum,“ segir Ágústa Eva.
Draumahlutverkið í vændum Síðasta ár hefur verið annasamt hjá leikkonunni. Hún er mikið að tala inn á teiknimyndir, meðal annars talar hún fyrir Elsu prinsessu í vinsælu teiknimyndinni Frozen.
„Það er mikil eftirspurn eftir fólki sem getur bæði sungið og leikið, í leikhúsinu og annars staðar,“ segir Ágústa sem hefur verið fastráðin við Þjóðleikhúsið og var í fimm verkum í vetur. Nú eru samt ákveðin tímamót hjá Ágústu Evu sem nýverið sagði samningi sínum við leikhúsið upp.
„Ég er mikið fiðrildi og finnst ekki gaman að gera sama hlutinn alla daga, kvölds og morgna. Hef gaman af því að blanda ólíkum hlutum saman. Þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegur tími við Þjóðleikhúsið og ég hef fengið að spreyta mig á mörgum ólíkum hlutverkum. Ég hef verið að sýna einna langmest af leikurum og á síðasta ári var ég í hátt í 300 sýningum. Nú get ég tekið að mér eitt og eitt verkefni og sinnt fjölskyldunni,“ segir Ágústa Eva sem ætlaði að taka sér alfarið hlé frá leiksviðinu. Fara meira inn í rekstur Mjölnis, taka yfir verslun sem þau starfrækja innan klúbbsins og hugsanlega huga að handritaskrifum sem blunda í henni.
Svo fékk Ágústa tilboð sem hún gat ekki hafnað frá Borgarleikhúsinu svo hléið frá leiksviðinu verður að bíða enn um sinn. „Ég má ekkert gefa upp um hlutverkið en ég get sagt að ég hefði líklega hafnað öllu nema þessu. Það má segja að þetta sé hálfgert draumahlutverk.“
Ómenntað framafólk Þrátt fyrir að hafa kynnst formlega í Mjölni fyrir sex árum hafa leiðir Ágústu Evu og Jóns Viðar legið saman fyrir það, án þess að þau þekktust.
Ágústa Eva hefur tvisvar sinnum þurft að kalla til lögreglu og í bæði skiptin kom Jón Viðar, sem þá starfaði sem lögreglumaður, á vettvang og tók af henni skýrslu. Bæði unnu þau á veitingastaðnum Vegamót og stunduðu nám við Menntaskólann í Kópavogi, en hvorugt kláraði námið. Þau eru ómenntað framafólk, enda hafa þau bæði náð langt sínum sviðum án þess að vera með þar til gerða menntun. Sem var ekki beint planið hjá þeim heldur æxluðust hlutirnir bara þannig.
„Ég vissi hver Ágústa var eftir Silvíu Nótt og svona. Þegar systir mín sagðist ætla að koma með hana á æfingu varð ég smá stressaður. Hræddur um að ég færi bara að hlæja að henni,“ segir Jón Viðar og glottir. Á þessum tíma starfaði hann í lögreglunni og Ágústu Evu langaði að skrifa handrit sem fjallaði um spillingu innan lögreglunnar.
„Ég hafði mikinn áhuga á lögreglunni og fékk að fara og kynna mér hennar starf, meðal annars í gegnum Jón. Ég kynnti svo hann og Óla (innsk. Bl Ólaf Jóhannesson, leikstjóra) sem þá var að byrja með Borgríki. Handritið sem ég var byrjuð á svipar tl söguþráðar myndarinnar en handritið hvarf þegar tölvan mín dó. Svo það endaði með að við komum bara inn í verkefnið með Óla,“ segir Ágústa.
Stærri og grófari Jón Viðar sá um að þjálfa alla áhættuleikarana, meðal annars Ágústu Evu, útfærði bardagasenur í myndunum tveimur og sá um að finna fólk í hlutverk. Planið hjá honum var alltaf að fara út í áhættuleik en svo tók Mjölnir við. Loksins, eftir mikla vinnu og áralangt sjálfboðastarf Jóns Viðars og annarra Mjölnismanna, blómstrar bardagaklúbburinn. Í framhaldsmyndinni, Borgríki II, sem er bæði stærri í sniðum og grófari en fyrri myndin, fær Jón Viðar hins vegar líka að spreyta sig fyrir framan myndavélina.
„Ég leik mjög heimskan glæpamann og það verður spennandi að sjá þetta á hvíta tjaldinu. Smá stressandi en bara gaman. Gaman að leika á móti Ágústu sem sér til dæmis um að yfirheyra mig í myndinni,“ segir Jón Viðar og Ágústa tekur í sama streng.
„Hann fær alveg svona alvöru senu og stendur sig mjög vel. Það var mjög gaman að leika á móti honum, stundum svolítið erfitt að halda andliti. Gaman að fá hann inn á minn heimavöll eftir að hann hefur verið að leiðbeina mér í Mjölni, hann er mjög góður kennari.“
Parið sér ekki fyrir sér að gera neitt annað í framtíðinni en það sem þau gera núna. Vera í hringnum og á sviðinu. Blanda saman bardaga- og leiklist, sem á meira sameiginlegt en margur skildi halda.
„Það er hálfgerður spuni í bardagahringnum. Maður þarf að lesa í andstæðinginn alveg eins og mótleikarann. Í raun er þetta mjög svipað dæmi,“ segir Ágústa Eva.
#Ágústa Eva Erlendsdóttir#Jón Viðar Arnþórsson#Borgríki 2011#Borgríki 2#Borgríki 2 Blóð Hraustra Manna#Mjölnir#leiklist#Þjóðleikhúsið#Borgarleikhúsið#Olaf de Fleur#Viðtal#Vísir#xs
0 notes
Text
Er aldrei að leika sama leikinn

Ingvar er, sem kunnugt er, í aðalhlutverki í myndinni Hross í oss, eftir Benedikt Erlingsson, sem hvarvetna fær góða dóma. Á kynningarmynd sést Ingvar, fremur aumkunarverður, á baki hryssu sem graðfoli er á. Skyldu þær aðstæður ekki hafa verið ógnvekjandi?
„Jú, jú, en það var búið að undirbúa þetta skot mjög vel, enda ekki hægt að endurtaka það og sex myndavélum var stillt upp þannig að hægt væri að klippa á milli. Merin var í látum og folinn tiltölulega rólegur. Áhættuhestamaður var búinn að prófa þetta atriði sex dögum áður með sama fola en ég fylgdist ekkert með því. Ég var ekkert hræddur en mér fannst þetta skrítið og mig langaði ekkert að vera þarna meðan þau voru að athafna sig.“
Æfir sig á nikkuna Að næstu mynd, Málmhaus eftir Ragnar Bragason, sem verður frumsýnd hér á landi innan skamms. Þar leikur Ingvar föður ungrar stúlku sem er aðalpersónan. „Þau eru í forgrunni unga stúlkan og foreldrar hennar, öll að díla við missi sem þau komast ekki yfir og brýst út á mismunandi hátt. Auðvitað er þetta sorglegt en sagan segir grátbroslega sögu af heilu samfélagi sem er enn þá að bregðast við afleiðingum slyss sem gerðist á kúabúi níu árum fyrr,“ lýsir Ingvar.
Varstu við frumsýninguna úti í Toronto?
„Nei, nei. Ég mátti ekkert vera að því og hef ekki séð nema brot úr myndinni. Hins vegar er ég að fylgja eftir myndinni Hross í oss og fer með hana á kvikmyndahátíð í San Sebastian á Spáni í næstu viku þótt ég megi ekkert vera að því. Það er rosalega mikið í gangi hjá mér og aðalfókusinn núna er á Jeppa á Fjalli sem verður frumsýndur 4. október í Borgarleikhúsinu. Hann á hug minn allan. Síðan er það Borgríki 2 sem ég er nýbúinn að ljúka tökum í, ég er með í framleiðsluferlinu á þeirri mynd.“
Er alltaf svona mikið annríki hjá þér?
Dæsir létt. „Já, í rauninni, nema ég taki mér tíma til að fara í frí, sem ég auðvitað geri. En þetta er rosalega mikið, það vill verða þannig.“
Viltu hafa það svo?
„Já, ef það er gaman í vinnunni og ekki of mikið álag á fjölskyldunni. Það er misjafnt eftir verkefnum hversu mikið þau taka á og hversu mikið ég þarf að vinna heima. Í tilfelli Jeppa er svakalega mikil heimavinna. Þannig er það með sýningar sem mjög mikill texti er í og persónan sem ég leik er að fást við nokkuð sem ég er ekki vanur.“
Hvað gerir Jeppi sem þú þarft að æfa sérstaklega?
„Sko, einhvern tíma fékk ég þá dillu að kaupa mér harmóníku og bók til að reyna að læra á hana. Það er mikil tónlist í Jeppa á Fjalli, leikhópurinn er í raun eins og ein hljómsveit. Benni vildi endilega sjá mig með nikkuna en þó að ég hafi gutlað á harmóniku heima hjá mér í alllangan tíma hef ég lítið gert af því opinberlega, (hlær) – og ég verð að vera almennilegur – að minnsta kosti að koma inn á réttu stöðunum.“
Eitt kvikmyndaverkefni enn ber á góma, stuttmyndina En maler eftir Hlyn Pálmason sem hefur fengið miklar viðurkenningar og er komin í forval til Óskarsverðlauna. „Hlynur hafði samband og vildi fá mig til að leika listamann. Þetta var rosalega flott handrit hjá honum og falleg hugsun í vinnubrögðunum. En maler er útskriftarmyndin hans úr Danska kvikmyndaskólanum. Ég býst við heilmiklu frá þeim dreng.“
Nú varst þú um tíma úti í Hollywood. Dreymir þig um frekari verkefni þar?
„Ég gæti alveg hugsað mér þau en þá þyrfti ég að vinna miklu meira í þeim málum og ég er ekkert að sinna þeim nema hvað ég er enn með umboðsmann minn í London og fer stöku sinnum í prufur. Þá eru það aðallega hlutverk sovéskra eða þýskra illmenna eða einhæfar týpur sem mér bjóðast, sem ég hef takmarkaðan áhuga á, og svo eru bara margir um hituna og ég fæ ekki djobbin. En þessi möguleiki er fyrir hendi og ég vinn mikið erlendis, hef verið í Noregi, Frakklandi, Austurríki og Bretlandi, bæði í leikhúsum og kvikmyndum, aðallega í gegnum orðspor sem fer út. Allt fyrrasumar var ég til dæmis í Salzburg í Austurríki að æfa og leika Pétur Gaut. Sú uppsetning vakti heilmikla athygli.“
Mesta áskorunin Þá er það aldur, menntun og fyrri störf. Ingvar ólst upp í Bústaðahverfinu í Reykjavík, Víkingshverfinu, en kveðst ekki hafa æft fótbolta – ekki þá. Spilaði hann kannski á hljóðfæri? „Já, ég var í hljómsveit sem unglingur, á trommum. Varð svo frægur að fá nokkra tíma hjá Guðmundi Steingrímssyni djassara. Það var æðislegt. Hann kom bara heim og ég stillti settinu upp í stofunni. Síðan gerðist það að ég flutti upp í Borgarnes og var þar í hljómsveit og kirkjukór. Þar byrjaði líka þetta leiklistarbrölt – í Leikdeild Skallagríms.“
Manstu hvert var fyrsta hlutverkið?
„Það var RR, eða Rögnvaldur Reykill, í Dúfnaveislunni hans Halldórs Laxness. Það var mikil lífsreynsla. Ég var tvítugur þegar ég var dreginn í þetta og hafði litla trú á mér. Enda fór ég í Leiklistarskólann til þess að mennta mig. Vinur minn dró mig með sér í inntökuprófið, sem var ágætt því annars hefði ég ábyggilega ekkert farið.“
Af hverju Borgarnes?
„Af því að pabbi fékk stöðu póst- og símstöðvarstjóra í Borgarnesi. Foreldrar mínir fluttu á undan mér og ég var á báðum áttum með hvort ég ætti að elta. Ég var byrjaður í menntaskóla. Svo fór ég til þeirra og var í Reykholti í framhaldsdeild og fór svo í Fjölbraut á Akranesi en kláraði ekki stúdentinn.“
Þegar forvitnast er um starfsferil Ingvars utan leiklistarinnar kemur í ljós að hann er fjölbreyttur.
„Fyrsta starf mitt var að vera sendill hjá skeytaútsendingunni í Reykjavík, þá var ég bara tíu og ellefu ára. Á svipuðum tíma fór ég að selja blöð, bar út Tímann og fór svo niður í bæ að selja Vikuna. Var í unglingavinnu og fór í sveit fjórtán ára norður í Miðfjörð, á bæ sem heitir Staðarbakki. Það er eitt af því besta sem hefur komið fyrir mig. Þarna var tvíbýli og margir strákar. Ég úr Reykjavík og þeir hafa örugglega hugsað: Hvað ætli þessi geti? Þetta var ein mesta áskorunin í lífi mínu. Ég varð svoleiðis að standa mig. Þarna var ég tvö sumur og hef síðan haldið sambandi við fólkið á Staðarbakka, meðal annars farið í göngur og réttir með því á haustin ef ég hef getað. Í millibilsástandinu þegar mamma og pabbi fluttu í Borgarnes var ég að vinna í sláturhúsinu á Hvammstanga og líka við múrverk og byggingavinnu. Svo afgreiddi ég í versluninni Húsprýði í Borgarnesi, seldi raftæki og húsgögn og meira að segja postulín. Þegar ég var í leiklistarskólanum vann ég aðeins á Kleppi á sumrin og eftir að ég lauk við leiklistarskólann var ég eitt sumar á trillu. Það var líka alveg magnað. Ein af þessum upplifunum sem ég hefði ekki viljað missa af.“
Þessi upptalning skýrir hugsanlega hvað Ingvar á auðvelt með að setja sig inn í hinar ýmsu aðstæður sem leikari og líka hinar sterklegu hendur hans.
Þegar ástin tekur völdin Ingvar virðist vera í fantagóðu formi. „Eftir því sem maður reskist verður maður að hugsa aðeins um líkamann því leiklist er ekki bara að standa og tala,“ segir hann. „Mér finnst í raun að í þessu djobbi verði ég líka að vera tónlistarmaður, dansari og myndlistarmaður. Leikari þarf að hafa ansi marga hluti á hreinu áður en hann stígur á svið eða fram fyrir linsuna. Það er margfaldur misskilningur að góður leikari verði bara að geta lifað sig inn í leikinn. Þegar leiklist nær hæstu hæðum eru leikararnir í skörpustu meðvitund um sjálfa sig og rýmið. Einu sinni var ég spurður af einum mesta handboltakappa Íslands hvernig ég nennti að leika sömu rulluna aftur og aftur. „Alveg á nákvæmlega sama hátt og þú nennir að spila handbolta aftur og aftur,“ svaraði ég. Ég er aldrei að leika sama leikinn þó að reglurnar séu þær sömu. Maður fer inn í sama verkið en er endalaust að glíma við ögranir.“
Oft sést til Ingvars í Sundlaug Vesturbæjar. Hann kannast við það. „Ég fer í laugina, geri æfingar og teygjur en syndi ekki. Aðalástæðan er sú að þegar við vorum að sýna Woyzeck í London lékum við í vatni og ég kafaði mjög mikið. Ég hugsa að Englendingar hafi eitthvað trassað að skipta um vatn í kerunum því eftir eina sýninguna fékk ég svo mikla sýkingu í eyrun og hún tekur sig alltaf upp ef ég er mikið í vatni. Þess vegna er ég hættur að synda.“
Ingvar verður fimmtugur 22. nóvember í haust. Eiginkona hans, Edda Arnljótsdóttir leikkona, og elsti sonurinn eiga afmæli sama dag. „Við Edda fengum frumburðinn, Áslák, í afmælisgjöf. Svo eigum við þrjú önnur börn, Snæfríði, Sigurð og Hring,“ útskýrir Ingvar. Hann þvertekur fyrir að sameiginlegur afmælisdagur hafi leitt þau Eddu saman.
„Við Edda vorum búin að vera saman í skóla í einn og hálfan vetur þegar við byrjuðum saman. Það er kannski ekkert sérstaklega praktískt að byrja með bekkjarsystur sinni í leiklistarskólanum en þú veist hvernig ástin er – þegar hún tekur völdin er ekkert sem stoppar hana.“
0 notes
Text
Leikur í sjóðheitri kynlífssenu

„Þetta er sem sagt eldheit ástarsena. Við erum ekki tvö í henni heldur þrjú. Ég hef ekki leikið í slíkri senu áður nema í einhverju gríni með Steinda jr. í Steindanum okkar. Það var auðvitað allt, allt öðruvísi nálgun,“ segir Þórunn.
„Þetta er vandmeðfarin sena og ég hugsaði vel um hvort ég ætti að gera þetta eða ekki. Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta þjónaði tilgangi í sögunni í flottri bíómynd þannig að ég ákvað að slá til. Ég hitti leikstjórann, Ólaf DeFleur, og treysti honum strax fyrir þessu,“ bætir Þórunn við en játar að það hafi verið örlítið sérstakt að taka senuna upp.
„Það var mjög undarlegt að mæta í vinnuna og þurfa að vera uppi í rúmi heilan dag með tveimur einstaklingum. En um leið og maður hættir að flækja þetta, því þetta er bara atriði í bíómynd, þá var þetta mjög skemmtilegt og ekkert mál. Það er alltaf gaman að víkka sjóndeildarhringinn. Lífið er stutt og það er um að gera að slá til og gera eitthvað af þessu tagi ef mann langar og líður vel með það. Þarna var líka fagfólk í hverju einasta horni.“
Þórunn hefur ekki séð senuna en hlakkar vissulega til að sjá kvikmyndina í haust. „Ég treysti klippurunum og fagfólkinu algjörlega hundrað prósent. Maður verður að leggja sig í hendurnar á þeim ef maður ætlar að gera þetta. Ég leik konu sem er óhrædd og allt öðruvísi týpa en ég. Það er skemmtilegast. Að fá að skella sér í einhvern búning. Ég myndi ekki sjá sjálfa mig fyrir mér í svipaðri senu. Ég er ekki mikið í „threesome“ með útlenskum glæpamönnum,“ segir Þórunn og skellihlær.
Þórunn gengur nú með sitt fyrsta barn og er hálfnuð með meðgönguna.
„Þegar myndin kemur út í haust verð ég nýbökuð móðir. Þá verð ég örugglega fegin að sjá gamla, góða líkamann minn í flottu formi á hvíta tjaldinu,“ segir Þórunn á léttu nótunum. Hún slær ekki slöku við og er með mörg járn í eldinum.
„Ég er að leggja lokahönd á nýja plötu sem ég vinn með Bjarna í Mínus og Halli Ingólfssyni. Ég er ekki komin með útgáfudag en hún er alveg að verða tilbúin. Síðan er ég með Íslenska listann sem er vikulegur sjónvarps- og útvarpsþáttur. Ég er alltaf með einhver járn í eldinum og er vakandi fyrir tækifærum. Ef einhvern vantar ólétta konu í hlutverk er ég geim.“
#Þórunn Antonía Magnúsdóttir#Zlatko Krickic#Poppoli#Borgríki 2#Borgríki 2 Blóð Hraustra Manna#tökur#ástarsena#Erna Gunnþórsdóttir#Olaf de Fleur#Viðtal#Vísir#xs
0 notes