Don't wanna be here? Send us removal request.
Link
Þá eru leikir helgarinnar búnir. Ég er búin að horfa á fjóra leiki, tvo með Nebraska og tvo með Penn State. Get ekki séð að það hafi verið sýnt frá leikjum Stanford. Nebraska var með flotta útsendingu og buðu meira að segja upp á nýjung sem þeir voru mjög stoltir af, Super SloMo, geri aðrir betur. Penn State var með nemaútsendingu og gæðin því ekki eins góð (já og ekkert Super SloMo). Mér líst mjög vel á Nebraskaliðið, það eru tveir leikmenn á fyrsta ári en það var ekki að sjá þegar ég horfði á leikinn. Það er liberóinn Kenzie Knuckels og kanturinn Madi Kubik. Þær stóðu sig mjög vel í að fylla upp í plássið sem reynsluboltarnir Kenzie Malone og Mikaela Foecke skilja eftir. Nebraska gekk mjög vel í þessum leikjum, liðið er í öðru sæti miðað við þjálfaraspánna og fyrri leikurinn sem ég horfði á var á móti Creighton sem er í 18. sæti og svo við UCLA, en þær eru ekki inn í þessari spá. Þetta var nokkuð létt hjá Nebraska en liðið vann báða leikina. Fyrri leikin, á móti Creighton 3-1 og seinni leikinn á móti UCLA 3-0. Penn State átti auðveldari helgi en liðið mætti Hofstra og Holy Cross, hvorugur skólinn er í þjálfaraspánni hjá NCAA.
Penn State vann báða leikina 3-0. Það eru líka einhverjar breytingar hjá Penn State, uppspilarinn, Gaby Blossom, spilaði sem varauppspilari á seinasta tímabili en er núna komin í aðalhlutverkið. Jonni Parker spilar áfram sem dio en ég gat ekki séð betur en að hún spili í stöðu 6 í aftari línu og þá nýtt í sókn þaðan, en hún er flottur smassari. Tori Gorell spilaði miðju á seinasta og þarseinasta tímabili, hún er komin í kantstöðuna og virtist ekki leiðast það. Það er einn nýr leikmaður (1. árs) og hún spilar sem kantur, það er Allyson Cathey.
Stanford vann báða sína leiki 3-0.
Ég er ekki búin að horfa á fleiri leiki en held að Minnesota vs Florida State gæti orðið skemmtilegur leikur. Læt fylgja með link á leik Nebraska á móti Creighton.
0 notes
Text
Liðin sem ég fylgist með
Það eru þrjú lið sem ég hef helst fylgst með í háskólablakinu. Það eru liðin Penn State Nittany Lions, Nebraska Huskers og Stanford Cardinals. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem ég veit um þessi lið.
Penn State Nittany Lions er í raun fyrsta liðið sem ég uppgötvaði og liðið sem varð til þess að ég fór að horfa á háskólablakið í Bandaríkjunum. Ég held að það sé óhætt að kalla skólann stórveldi í háskólablakinu. Skólinn hefur unnið 6 NCAA titla síðan 2007, nú síðast árið 2014 og þá með nöfn eins og Micha Hancock, Haleigh Washington, sem var freshman of the year í BIG10 og Megan Courtney, sem var leikmaður ársins og stigahæst. Micha Hancock er með þrusuuppgjafir en hún á held ég enn metið yfir flesta ása á einu tímabili hjá NCAA. Hún spilaði sem uppspilari og hefur eitthvað verið að spila með bandaríska landsliðinu. Haleigh Washington er uppáhalds miðjan mín, mér finnst rosalega gaman að horfa á hana spila. Hún lauk ferlinum hjá Penn State 2017 og er búin að vera að spila með bandaríska landsliðinu, í vor í VNL (Volleyball Nations League) þar sem hún var valin besti blokkarinn og svo var hún lykilmaður um daginn þegar bandaríska landsliðið tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum í Tokyo 2020. Hún fór til Ítalíu í atvinnumennsku. Megan Courtney lauk líka sínum ferli hjá Penn State árið 2016. Hún spilaði sem kantur og gekk vel að skora. Hún hefur líka látið ljós sitt skína með bandarískja landsliðinu en þá sem frelsingi. Hún spilaði alla leikina þegar liðið tryggði sér sæti á ÓL og var valin besti frelsinginn á VNL. Hún hefur spilað með félagsliðum í Puerto Rico, Póllandi og Tyrklandi. Ég veit ekki alveg hvernig Penn State kemur undan sumrinu, sá leikmaður sem mér hefur fundist standa upp úr og er enn með þeim er Jonni Parker. Hún spilar díóstöðu og er með mjög flottar uppgjafir.
Nebraska Huskers er svo annað stórveldi í háskólablakinu. Held að það sé óhætt að segja að blakið sé hvergi jafn vinsælt og þar. Það er næstum alltaf fullt hús sem þýðir um 8.000 áhorfendur að meðaltali á leik. Skólinn á 5 NCAA titla að baki og er oft búinn að vera í efstu sætunum í BIG10. Mikaela Foecke spilaði sem kantur með The Huskers, hún lauk sínu tímabili þar í fyrra og spilaði með bandaríska landsliðinu á VNL í vor, bæði sem kantur og frelsingi.
Ef við færum okkur svo til vestur kemur röðin að Stanford Cardinals. Skólinn vann NCAA titilinn í fyrra og var það í 7. skiptið. Skólinn hefur líka oftar en ekki unnið PAC-12 deildina. Í Stanford er besti frelsinginn í háskólablakinu í dag, hún Morgan Hentz. Í Stanford er líka Kathryn Plummer, hún er á seinasta árinu sínu í háskólablakinu. Hún hefur verið valin besti leikmaðurinn í PAC-12 og af NCAA. Uppspilarinn er líka með þeim betri í landinu. Ekki má svo gleyma því að Kerri Walsh Jennings, einn besti blakari Bandaríkjanna spilaði með Stanford Cardinals. Nú spilar reyndar litla frænka hennar stöðu defence specialist en það er hún Kate Formico.
Ég hlakka mikið til að fylgjast með þessum liðum í haust, ætla að spá Nebraska titlinum þetta árið svona án þess að vita neitt meira. Svo byrjar ballið núna um helgina, Nebraska Huskers halda mót og spila þá á móti UCLA til dæmis. Penn State Nittany Lions heldur líka mót þessa helgi á meðan Stanford Cardinals mæta til Charleston og spila.
0 notes
Text
Reglur í háskólablaki vs hefbundar reglur
Til að flækja málin enn frekar eru reglurnar í háskólablaki ekki eins og annars staðar. Helsti munurinn felst í því að í háskólablaki eru leyfðar fleiri skiptingar í leik. Þar eru 12 skiptingar í hverri hrinu og má sami leikmaður koma og fara eins oft og skiptingarnar leyfa á meðan skiptingarnar eru 6 og hver leikmaður má aðeins koma einu sinni inn á og fara einu sinni út af í hverri hrinu. Þessi reglumunur gerir það að verkum að sumir leikmenn spila einungis frammi á meðan aðrir (oftast lágvaxnari) leikmenn verða sérhæfðir varnarmenn (e. defence specialist). Þeir bestu eru svo “6 rotation” leikmenn, þ.e. þeim er ekki skipt út þegar þeir fara í afturlínu. Svo eru reglurnar varðandi libero einnig ólíkar að því leyti að libero má gefa upp í einni stöðu og er það þá oftast fyrir aðra miðjuna.
0 notes
Text
Pac-12 og SEC
Pac-12 deildin er deildin sem er á Vesturströndinni í Bandaríkjunum. Þar eru einmitt 12 skólar sem taka þátt. Stanford, Oregon og USC eru þau lið sem hafa átt hvað bestu gengi að fagna en Stanford hafa einmitt tiltil að verja síðan í vor. Maðurinn í brúnni hjá Stanford er Kevin Hambly en hann gekk til liðs vð Stanford árið 2017. Liðið hefur unnið tvo Pac-12 titla og tapaði Stanford ekki einum leik í deildarkeppninni í fyrra, enduðu leiktíðina á 32 sigrum í röð sem er víst einhverskonar met (þó það nú væri!).

SEC (South Eastern Conference) er eins og nafnið segir til í suðausturhluta Bandaríkjana. Deildin samanstendur af 13 skólum sem taka þátt. Þar eru lið eins og Florida Gators með Mary Wise sem konuna í brúnni en hún er búin að vera hjá Florida í 29 ár. Þar eru líka Kentucky, Tennessee og Texas.
0 notes
Photo

Big10 deildin er deildin sem er vestanmegin í Bandaríkjunum. Upphaflega voru 9 skólar sem tóku þátt (og hét deildin þá Big9), núna eru skólarnir hinsvegar orðnir fjórtán en deildin heitir enn BIG ten, enda varla hægt að breyta svona flottu logo-i.
Liðin spila 20 leiki sín á milli yfir leiktíðina en það er mjög mismunandi hvað liðin spila marga leiki allt í allt, í fyrra var það 32-38 leikir á lið. Það virðist fara eftir því hvað liðin spila marga leiki við lið utan BIG ten.
Þeir skólar sem hafa náð hvað lengst í blakíþróttinni síðastliðin ár innan BIG ten eru Minnesota, Illinois, Wisconsin, Penn State og Nebraska sem spilaði úrslitaleikinn á móti Stanford í fyrra.
Þjálfarinn hjá Penn State er með áralanga reynslu af því að þjálfa, hann hefur víst verið hjá Penn State í 40 ár og unnið fjölmarga titla með liðinu. 2017 vann Penn State BIG ten deildina seinast og árið 2014 vann skólinn seinast úrslitakeppnina hjá NCAA. Russ Rose heitir þessi snillingur og er hann nokkurskonar risaeðla því hann notar helst ekkert annað en blað og penna. Sagan segir að þeir leikmenn sem hann hefur áhuga á að fá til liðs við skólann fái yfirleitt handskrifað bréf frá honum sjálfum.
Nebraska er líka með gamlan ref innanborð en það er hann Tom Cook en hann er bara búinn að vera aðalþjálfarinn hjá þeim síðan árið 2000, hann á því töluvert í að ná meistara Rose. Nebraska hefur gengið aðeins betur en Penn State undanfarin 4 ár. Skólinn vann NCAA keppnina árin 2015 og 2017 en tapaði úrslitaleiknum fyrir Stanford í fyrra. Nebraska vann BIG ten deildina árin 2016 og 2017 (deildi fyrsta sætinu með Penn State).
0 notes
Text
Háskólablakið í Bandaríkjunum
Það er víst ekki nein atvinnumannadeild í blaki í Bandaríkjunum heldur keppa blakarar fyrir háskólana og eru recruit-aðir af þeim í upphafi háskólaferilsins. Þegar háskólanum lýkur fara þeir sem geta erlendis í atvinnumennsku. Ég er búin að fylgjast með þessu í nokkur ár en aldrei skilið fullkomlega hvernig þetta virkar. Ætla að skoða þetta betur og fer yfir það hér.
NCAA (stendur fyrir The National Collegiate Athletic Association) eru samtök sem standa fyrir keppni fyrir háskólanema í blaki og öðrum íþróttagreinum. Það eru 4 deildir í útsláttarkeppninni sem er haldin í desember ár hvert. Í efstu deildinni taka 64 lið þátt og enda svo tvö lið í úrslitaleiknum sem verður í ár þann 21. desember. Samtök þjálfara gera svo spá fyrir um það hvaða lið verður sigurvegari og má sjá þá spá hér í fyrsta póstinum. Það verða oft miklar breytingar á liðunum á hverju hausti því þegar fólk útskrifast þá má það ekki lengur keppa fyrir háskólann. Hver einstaklingur hefur víst 5 ára ramma sem hann má keppa í en hann má bara keppa í fjögur ár af þessum fimm. Sem freshman, sophomore, junior og senior.
Um haustið spila svo skólarnir sín á milli í nokkurs konar deildum sem eru þá svæðaskiptar. Sterkustu deildirnar eru Big10 (vestur) og Pac-12 (austur), ég skal fara betur yfir það hvaða skóli er í hvaða deild fljótlega. Þegar stigin (sigur vs tap) í deildunum eru talin eru bæði talin stig innan deildarinnar og svo líka stig þegar skólarnir spila við skóla sem eru ekki í sömu deild. Sem dæmi getur skóli á vesturströndinni spilað við skóla í Hawaii. Það er keppt í túrneringum sem eru haldnar í skólunum og eru leikirnir vel sóttir. Í Nebraska eru til dæmis um 6.000 áhorfendur á hverjum leik. Skólalúðrasveitin, klappstýrurnar og lukkurdýrið er allt á sínum stað. Það eru sér sjónvarpsstöðvar sem sjá um að sýna frá hverri deild, yfirleitt tveir að lýsa og í fyrra var það landsliðsþjálfari bandaríska kvennalandsliðsins sem lýsti lokaleikjunum í úrslitakeppninni hjá NCAA.
Ætli ég láti þetta ekki duga að sinni, skoða svo kannski BIG10 og PAC-12 betur í næsta pósti.
0 notes
Text
Nú styttist í að tímabilið í háskólablakinu hefjist. 30. ágúst er dagurinn. Stanford er spáð fyrsta sætinu af þjálfurum en þær unnu í fyrra. Nebraska er spáð öðru sæti. En þessi lið spila í sitt hvorri deildinni. Nebraska er í Big10 á meðan Stanford spilar í Pac-12. Það verður fróðlegt að sjá hvernig veturinn fer hjá þessum liðum og fleirum sem taka þátt.
1 note
·
View note