Tumgik
hokkieyjan · 10 years
Text
DiMarcaregn
Það var líf og fjör í Laugardalnum í kvöld þegar SR tók á móti SA í eina leik kvöldsins. Leikurinn var pínu hægur af stað en einungis aðeins fyrstu örfáu mínúturnar og veislan hófst á sjöttu mínútu þegar Miroslav Racansky kom heimamönnum yfir. SR-ingar voru beittir í fyrsta leikhluta og áttu slatta af góðum færum og þeir skoruðu annað mark eftir 12 mínútna leik og var þar á ferðinni Robbie Sigurðsson. SA-menn voru reyndar skæðir fram á við líka en gekk erfiðlega að nýta færin og staðan eftir fyrsta leikhluta 2-0 SR í vil.
SA-menn færðust allir í aukana í öðrum leikhluta og héldu áfram að fá góð færi á meðan færunum fækkaði hjá SR-ingum. Markatala annars leikhluta endurspeglar það en Norðanmenn unnu leikhlutann 0-3 og náðu heljartaki á leiknum sem þeir slepptu aldrei, og má segja að þeir hafi einfaldlega verið betra liðið í að minnsta kosti síðustu 40 mínúturnar. Allt uppsett spil gekk vel og þeir virtust einfaldlega betri á skautunum en Sunnanmennirnir. Á köflum mátti sjá SA-menn dansa fram hjá andstæðingunum og silkimjúkt spil þeirra í öðrum og þriðja leikhluta skóp sigurinn. Mörk SA í öðrum leikhluta skoruðu Ben DiMarco (2) og Gunnar Sigurðsson og staðan því 2-3, SA í vil eftir annan leikhluta.
Yfirburðir eru líklega of stórt orð en í þriðja leikhluta héldu yfirráð SA áfram og þeir skoruðu þrjú mörk til viðbótar en SR svaraði með einu. Hilmar Leifsson og Jón Gíslason skoruðu glæsileg mörk fyrir SA og staðan orðin 2-5 fyrir gestina, áður en Guðmundur Þorsteinsson svaraði með þrumuskoti fyrir SR, 3-5. Lokamark leiksins skoraði Ben DiMarco og þar fullkomnaði hann þrennuna sína, en auk þess að skora þrjú mörk lagði hann upp hin þrjú mörk SA (óstaðfest, bíðum ennþá eftir leikskýrslu frá ÍHÍ þegar þetta er skrifað), og reyndist Hokkíeyjunni auðvelt að velja hann mann leiksins, en hann virðist yfirburðamaður í þessari deild. 3-6 sigur SA var því staðreynd og sigurinn sanngjarn þegar upp er staðið.
Athugasemdir við framkvæmd leiksins: Lítið um leikinn að segja þannig, sem er gott. Dómgæsla var fín, en dómarinn lagði þá línu að leyfa leiknum frekar að fljóta en að flauta á allt sem flauta hefði mátt á samkvæmt reglubókinni. Tónlistin var spiluð sjúúúúúúklega hátt í kerfinu og það var erfitt að ræða saman uppi í stúku og hávaðinn reyndi satt best að segja á eyrun. Það var nokkuð skrautlegt þegar rafmagnið fór af skautahöllinni þegar 13 mínútur voru eftir af seinasta leikhluta. Þar var nú ekki við Skautahöllina að sakast en rafmagn hafði farið af svæðinu kringum Laugardalinn. Áhorfendur voru nokkuð ráðvilltir þar sem um tíma leit út fyrir að dómarinn hefði flautað leikinn af og fólk gerði sig líklegt til að yfirgefa Skautahöllina en þá hrökk rafmagnið á aftur.
0 notes
hokkieyjan · 10 years
Text
Smávegis yfirferð
Svona fyrst allir svölu krakkarnir eru með preview:
Atlantshafsriðillinn:
Boston Bruins - Hafa staðið nokkurn veginn í stað, Jarome Iginla er samt horfinn á braut vegna vandræða Bruins við að koma sér undir launaþakið. Verða væntanlega eitt af bestu liðum Austursins.
Buffalo Sabres - Verða áfram í kjallaranum, en eftir að hafa nælt sér í nokkra ágætis leikmenn í sumar verða þeir ekki jafn hryllilegir áhorfs og á seinasta tímabili, enda ekki annað hægt.
Detroit Red Wings - Gekk hryllilega að næla sér í leikmenn í sumar - enginn fríherji vildi koma til Detroit. Þeir reyndu við marga en allir fóru annað. Gæti orðið erfitt að komast í úrslitakeppnina 24. árið í röð. Zetterberg og Datsyuk orðnir gamlir og fáir með reynslu með þeim og Nyquist er ekki að fara að nýta 18% af skotum sínum tvö tímabil í röð.
Florida Panthers - Hafa bætt í leikmannahópinn í sumar eftir afspyrnulélegt tímabil (Sabres voru samt mun verri nota bene) en munu líklega ekki komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir það. Ungu leikmennirnir munu halda áfram að bæta sig en megnið af þeim leikmönnum sem komu til liðsins í sumar er drasl eða ofmat eða bæði, t.d. Dave Bolland, Willie Mitchell og Shawn Thornton, en sá síðastnefndi er mun betri í að kýla fólk en spila íshokkí.
Canadiens du Montréal - Fóru langt í vor og liðið breyttist lítið í sumar.
Ottawa Senators - Misstu Spezza og Hemsky eftir að hafa misst af úrslitakeppninni. Erfitt tímabil.
Tampa Bay Lightning - Gætu orðið skemmtilegt og gott lið, ennþá betra en á seinasta tímabili. Ef þeir missa ekki Stamkos og Bishop í meiðsli eins og síðast gætu þeir náð langt.
Toronto Maple Leafs - Bylting þar í sumar, menn hafa tekið "advanced stats" opnum örmum. Liðið sem þeir tefla fram á svellinu hefur ekki breyst mikið, en aukaleikararnir sem komu í sumar þykja betri en oftast áður. Gætu tekið skref fram á við og inn í úrslitakeppnina.
Metropolitan-riðillinn: Carolina Hurricanes - Skiljanlegt að lið sem kemst nánast aldrei í úrslitakeppnina skipti um stjóra og þjálfara. Óskiljanlegt að gera engar breytingar á leikmannahópnum.
Columbus Blue Jackets - Gaman að sjá þetta lið loksins blómstra eftir að hafa verið í kjallaranum frá stofnun. Gerir tilkall til sætis í úrslitakeppni annað árið í röð.
New Jersey Devils - Engar meiriháttarbreytingar, nokkrar þó, hjá liði sem var einstaklega óheppið að ná ekki inn í úrslitakeppnina síðast. Liðið talið aðeins betra ef eitthvað er.
NY Islanders - Stjórinn þykir hafa staðið sig vel á markaðnum í sumar. Ef Tavares helst heill eru allar líkur á að Isles komist í úrslitakeppnina.
NY Rangers - Fóru í lokaúrslit en áttu ekki séns í Kings. Hafa misst mikið af breiddinni í leikmannahópnum, gæti orðið talsvert erfiðara tímabil en seinast.
Philadelphia Flyers - Timonen frá vegna blóðtappa, slæmar fréttir stuttu fyrir æfingabúðirnar. Varnarlínan öll spurningamerki þó sóknarlínan sé frábær á pappírnum. Gæti endað illa.
Pittsburgh Penguins - Miklar breytingar þó kjarninn sé hinn sami. Nýr stjóri og nýr þjálfari, nýir aukaleikarar. Óvíst hvort þeir komast yfir playoff-vandræði sín.
Washington Capitals - Nýr stjóri og nýr þjálfari. Fengu Niskanen en borguðu alltof mikið fyrir ofmetinn Brooks Orpik. Grabovski er farinn, hver verður 2. línu senter?
Miðriðillinn: Chicago Blackhawks - Svekktir, enda hefðu þeir unnið Stanley bikarinn hefðu þeir unnið Kings í úrslitum Vesturdeildar. Leikmannahópurinn lítið breyttur enn sem komið er, en eitthvað verður að gerast til að liðið komist undir launaþakið. Patrick Sharp gæti verið á útleið eftir að Toews og Kane fengu nýja og rándýra samninga.
Colorado Avalanche - Tölfræðin segir að Avs hafi verið heppnir að ná svona langt í fyrra, enda þurftu þeir mikið að verjast og treysta á að Varlamov ætti sitt besta tímabil á ferlinum. Hafa fengið Iginla, en misstu Stastny. MacKinnon heldur áfram á leið sinni til skýjanna.
Dallas Stars - Jim Nill heldur áfram að gleðja augað með snjöllum viðskiptum. Spezza og Hemsky mættir og allt í einu eru Stars með tvær flottar sóknarlínur. Gætu tekið skref enn lengra fram á við.
Minnesota Wild - Fengu Vanek eins og allir bjuggust við, að öðru leyti óbreytt lið svo að segja. Markvarslan er spurningamerki. Markmennirnir eru góðir en báðir meiðslapésar.
Nashville Predators  - Fengu sér eitt stykki James Neal til að skora mörk. Áttu engan senter handa honum þannig að þeir fengu sér þrjá. Ef Neal og Ribeiro ná ekki saman er allavega nóg af senterum til að prófa með Neal. Í fyrsta sinn í sögu félagsins mun Barry Trotz ekki þjálfa liðið, og Peter Laviolette mun láta breyttan leikmannahóp spila mesta sóknarleik sem fólk í Nashville hefur nokkru sinni séð.
St. Louis Blues - Hafa bætt Paul Stastny í hópinn og eru því með hina mikilvægu breidd í senterstöðunni, sem allir tala um að sé lykillinn að hinni gríðarsterku Vesturdeild. Annars svipaður hópur.
Winnipeg Jets - Óskiljanlegt sumar þar. Nældu sér í hina margfrægu stjörnuleikmenn Mathieu Perrault og TJ Galiardi á meðan Olli Jokinen fór í Preds. Fríherjar vilja einfaldlega annars ekki semja við Jets og ekki skrítið að ekkert gerist þar, en að hleypa ekki í eins og eitt treid eða svo er óskiljanlegt, hjá hópi sem hefur ekki komist í úrslitakeppni í 6-7 ár. Stjórinn hefur líklega verið í fríi allt sumarið eða eitthvað, en hann hefur reyndar aldrei framkvæmt bein leikmannaskipti (leikmann fyrir leikmann) á ferli sínum hjá Jets, sem er ótrúlegt.
Kyrrahafsriðillinn:
Anaheim Ducks - Tölurnar segja að Ducks hafi verið heppnir seinast, en þeir hafa bætt við sig frábærum senter til að spila í 2. línu, Ryan Kesler. Gætu því gert svipaða hluti. Missirinn af Selänne mun því miður fyrir kappann líklega hafa meiri áhrif í klefanum en á svellinu, en við munum samt sakna hans.
Arizona Coyotes - Nafnið er líklega stærsta breytingin. Sam Gagner er mættur til að spila senter í stað Mike Ribeiro, og Radim Vrbata fór í Canucks. Seinast þegar hann reyndi að spila annars staðar í NHL en með Yotes fór það illa. Hann samdi við Tampa en entist aðeins 18 leiki og kláraði tímabilið heima í Tékklandi, áður en hann samdi síðan aftur við Yotes um sumarið.
Calgary Flames - Fengu sér góðan markmann í Hiller en misstu Cammalleri til Devils. Verða áfram í kjallaranum en munu "berjast hetjulega".
Edmonton Oilers - Vonandi fyrir þetta lið mun það hætta að vera í kjallaranum. Grátlegt að horfa á lið skipað jafn efnilegum leikmönnum gera svona lélega hluti á svellinu. Létu Gagner fara án þess að fá senter í staðinn, þannig að senterstaðan núna er beisiklí Ryan Nugent-Hopkins, Boyd Gordon og svarthol þar á milli.
Los Angeles Kings - Meistararnir gerðu skiljanlega lítið í sumar. Tryggðu sér þjónustu Gaborík næstu fimm árin eða svo og Lombardi heldur áfram að vera skrefi á undan hinum stjórunum í deildinni.
San José Sharks - Töpuðu á grátlegan hátt fyrir Kings í fyrstu umferð í vor. Töluðu í kjölfarið hátt um "rebuild" áður en þeir áttuðu sig á að það gengi ekki upp því leiðtogarnir í liðinu eru með klásúlur í samningum um að ekki megi treida þeim. Enda ekki skynsamlegt að brjóta upp lið sem hefur þann eina veikleika að vera ekki betra en LA Kings. Ætla að henda Brent Burns aftur í vörnina, sem er óskiljanlegt, og sömdu við górilluna John Scott, sem er ennþá óskiljanlegra. Ætla þeir að láta hann skora mörkin á móti Kings? Manninn sem kann ekki að skauta?
Vancouver Canucks - Létu Torts fara eftir skelfilega frammistöðu á bak við bekkinn og honum Ryan Kesler varð að ósk sinni og hann fékk að fara til Ducks. Vrbata mun spila með Sedin-bræðrum í annars þunnum leikmannahópi.
2 notes · View notes
hokkieyjan · 11 years
Text
Upphaf Ólympíuleikanna (á Stöð 2 Sport)
Jæja, þá er keppni í karlaflokki farin af stað. Eins og má sjá glögglega á facebooksíðu NHL Íslands vakti einna mesta athygli almennur staðreyndaruglingur lýsenda á fyrsta keppnisdegi, auk þess sem aðallýsandinn þekkti greinilega afar takmarkað til íþróttarinnar. Hann var þó hreinskilinn með það og hikaði ekki við að spyrja byrjendalegra spurninga. Það hefur eflaust hjálpað þeim áhorfendum sem ekki horfa mikið á íshokkí nema á stórmótum sem þessum að komast aðeins betur inn í sportið án þess að líða illa yfir lítilli þekkingu.
Það sem var hinsvegar verra var hvernig Viðar (sem mig minnir að sé Garðarsson), formaður íshokkísambandsins á Íslandi, fór með staðreyndir. Eins og sjá má á Facebooksíðunni ullu upp úr manninum endalausar staðreyndavillur, t.d. nafnaruglingur, vitlaus lið leikmanna og greinileg vanþekking á NHL-deildinni eins og hún er í dag. Og ég meina, come on, maður þarf að hafa fylgst 0% með síðustu svona sjö árin til að halda því fram að Oilers séu meðal betri liða deildarinnar...
Í dag hefur þetta skánað alveg helling og nýr aðallýsandi var tekinn við, a.m.k. á leik Slóvaka og Bandaríkjamanna á Stöð 2 sport. Ég sá ekki viðureign Rússa og Slóvena á Sport 3 og get ekki sagt hvernig fór með lýsendur þar. Á sport 1 var hinsvegar kominn maður að nafni Arnþór sem þekkti greinilega vel til íþróttarinnar og var eða er leikmaður. Stöð 2 fær prik fyrir að bæta úr þessu. Maður hefur hinsvegar áhyggjur af því að Viðari sé ár eftir ár boðið að aðstoða við lýsingu leikja á ÓL og HM meðan hann fer svona frjálslega með staðreyndir. Hann spýr út úr sér "upplýsingum" og það án alls hiks. Sýnir enga varfærni og slær enga varnagla og fer með sitt fleipur eins og það sé allt satt.
Arnþór var öllu betri og þekkti greinilega vel til NHL, en það sem vafðist helst fyrir honum var greinilega lítil reynsla af beinum lýsingum (en við fyrirgefum það nú alveg, hann bætti það upp með þekkingu), sem og beyging orðsins pökkur. Hann notaði þrjár þágufallsmyndir, sagði ýmist pökknum, pekkinum, eða pekknum, en það skrítnasta var að hann sagði endurtekið pekkjarins, í eignarfalli, en ekki pökksins eða pakkarins. Þetta var ekki misheyrn eða mismæli, hann notaði þetta endurtekið. Svo sem áhugaverðara fyrir mig málfræðinginn en þá tvo-þrjá sem lesa þetta, en það er bara þannig.
Svo maður komi sér loksins að helvítis leikjunum, þá sýndu Bandaríkjamenn þvílíka yfirburði. 2. leikhluti var þeirra eign og þeir dældu inn mörkum á greyið Slóvakana, sem eru nú ekki með lélegri þjóðum í íshokkí. 2. leikhluti endaði 6-1 og leikurinn alls 7-1. Bandaríkjamenn léku við hvurn sinn fingur og lokatölurnar gefa eiginlega nokkuð rétta mynd af leiknum. Bandaríkjamenn eru greinilega með mun betra lið, það verður bara að segjast. Það var helst að líf væri í Tomas Tatar, og kannski Marian Hossa, en annað var það nú ekki.
Í gær sýndu síðan Svíar á svipaðan hátt að þeir eru með betra lið en Tékkar, ekki með sömu yfirburðum þó. Tékkarnir áttu ágæta kafla en voru heilt á litið skrefi á eftir Svíunum, sem eru með gríðarsterkt lið þó Henrik Sedin sé ekki með, og Johan Franzen ekki heldur.
Dan Bylsma fannst mér leika nokkuð undarlegan leik. Hann dreifði álaginu svo að segja ekki neitt þó að Bandaríkjamenn séu greinilega með mun meiri breidd af góðum leikmönnum en kollegar þeirra, Slóvakar. Til að mynda sást varnarparið Paul Martin / Brooks Orpik eiginlega ekkert á svellinu allan leikinn, helst aðeins eftir að Bandaríkjamenn voru komnir í 7-1. Þá fékk Blake Wheeler einnig aðeins að spreyta sig, og Ryan Callahan fékk yfir það heila að spila afar lítið.
Mjög undarlegt í ljósi þess að Bandaríkjamenn geta hæglega rúllað fjórum sóknarlínum og þremur varnarlínum án þess að það komi mikið niður á gæðum spilamennskunnar. Þeir geta vissulega ekki keppt við Kanadamenn hvað þetta varðar, en það getur líka enginn, og á móti Slóvökum hefðu þeir greinilega getað dreift álaginu mun meira, en jafnvel eftir að staðan var orðin 7-1 fengu nokkrir leikmenn lítið sem ekkert að spila, af sjónvarpsmyndum að dæma. Ég horfði á allan leikinn nema síðustu 7-8 mínúturnar (enda leikurinn orðinn hundleiðinlegur þá) og hef ekki séð leiktímann hjá leikmönnum, þannig að hugsanlega rættist úr þessu í lokin. En á svona stuttu móti þar sem álagið er mikið hefði manni þótt eðlilegra að reyna að dreifa því, sérstaklega af því Bandaríkin eru komin með slatta af alveg háklassaspilurum.
0 notes
hokkieyjan · 11 years
Text
Burt með Coyotes
Getiði plís bara fært þetta lið eitthvert annað? Seattle, Quebec, bara eitthvað. Ef ekki, leggið það þá allavega niður. Það eru allir orðnir hundleiðir á þessu endalausa helvítis veseni með leikvangssamning, nýja hugsanlega eigendur og svo framvegis. Í guðanna bænum. Þetta er búið að vera svona stanslaust í allavega hvað, 2-3 ár? Frekar en að gera Coyotes aðdáendum þetta, flytjið bara liðið burt og kippið plástrinum af í stað þess að jugga hnífnum sem enn stendur í sárinu (sári sem gæti eða gæti ekki gróið).
Það hefur vissulega gengið ágætlega hjá NHL á "óhefðbundnum" hokkísvæðum. San José og Nashville eru ágæt dæmi um vel studd lið, auk þess sem Tampa, Carolina og Los Angeles hafa unnið Stanley-bikarinn, en ég sé ekki að þetta gangi í eyðimörkinni.
Það hefur vissulega gengið í Dallas en ég sé ekki fyrir mér að það nái að myndast neinn hokkíkúltúr í Phoenix/Glendale og hvað þá einhvers konar hokkí-infrastrúktúr líkt og er kominn til Dallas. Aðdáendur eru fáir í Phoenix, lítið selst af miðum á leiki og meðan deildin sjálf á liðið (finnst engum það vafasamt til að byrja með að eigendur annarra liða eigi síðan hlut í öðru liði?) er það ekki að fara að tryggja stöðugleika og laða að sér samningslausa leikmenn.
Dave Tippett þjálfari tók sér ansi langan tíma í að gera nýjan samning vegna allrar endalausu óvissunnar og nú bíða menn eftir því hvort markmaðurinn Mike Smith vill gera nýjan samning við lið sem gæti flutt á nýjan stað eftir nokkrar vikur (hann ætti reyndar að gera það því hann verður hvergi nokkurs staðar með jafn fansí tölur og á bak við vörnina hjá Tippett, sama hvar Coyotes enda á að spila).
0 notes
hokkieyjan · 11 years
Text
Allt í einu búið og óvænt hetja
Þá er þetta allt í einu bara búið. Ekkert hokkí í nokkra mánuði. Það er svo sem í góðu lagi, það er komið sumar og tími til að fara út í góða veðrið. Fyrirkomulagið á úrslitakeppninni í NHL er reyndar þannig að það dregur alltaf smám saman úr leikjunum. Deildakeppninni lýkur og þá eru ekki lengur 4-10 leikir á kvöldi. Fyrsta umferð í úrslitakeppni hefst og leikir eru kannski 2-4 á kvöldi. Svo detta liðin smám saman út og leikirnir fara að vera einn á kvöldi og svo fara að koma hokkílaus kvöld. Þegar svo lokaúrslitin hefjast er dagskráin þrír leikir á viku, á mánudegi, miðvikudegi og laugardegi. Þannig er maður smám saman vaninn af hokkíinu, sem er fínt, maður er undir það búinn að framundan sé ekkert hokkí. Upplifun mín á leiknum í nótt gekk þó eilítið í berhögg við þetta. Bruins leiddu lengi vel framan af áður en Toews jafnaði og leiddu svo aftur eftir mark Lucic um miðjan þriðja leikhluta. Svo er rúm mínúta eftir og maður er farinn að hugsa til sjöunda leiksins í Chicago á miðvikudaginn. En svo gerist eitthvað og Hawks skora tvö mörk á 17 sekúndum og allt í einu er tímabilið búið. Ég hugsa að upplifunin hafi verið eitthvað svipuð fyrir Bruins-aðdáendur, þeirra menn að vinna og tryggja sér sjöunda leik en svo snarbreytist allt og þeir þurfa að horfa á Hawks lyfta bikarnum í TD Garden. Að horfa á þá athöfn er alltaf nógu vandræðalegt vegna þess að alls staðar er baulað svo gríðarlega mikið á Gary Bettman þegar hann kemur til að afhenda bikarana, en það hjálpar ekki þegar útiliðið lyftir bikarnum. Hawks eru reyndar vanir, þetta er að hálfu leyti sama lið og hampaði bikarnum í Philadelphia (eftir einmitt sex leikja seríu) fyrir þremur árum. Auk þess var að því er virtist hellingur af Hawks aðdáendum í húsinu. Svona hefur þetta reyndar verið mikið að undanförnu, Penguins lyftu t.d. bikarnum í Detroit 2009 og Bruins í Vancouver 2011. Jöfnunarmark Hawks var eitthvað sem maður trúir vel ef maður sá ekki leikinn og heyrir markinu lýst. Hawks taka Crawford út af og setja sjötta útileikmanninn inn á í hans stað og Kane og Toews búa til mark sem Bickell skorar. Maður hefði svo sem kannski ekki trúað því fyrir úrslitakeppnina að Bickell yrði maðurinn en eftir allt sem hann hefur gert í vor kemur það ekki á óvart. Það sem kemur hinsvegar klárlega á óvart er það hver skorar sigurmarkið og hverjir voru inná. Hawks jafna leikinn og Quenneville hugsar örugglega með sér að nú fari leikurinn í enn eina framlenginguna. Hann hendir fjórðu línunni inn á til að klára venjulegan leiktíma en hún skorar sigurmarkið. Eftir skot Johnnys Oduya frá bláu línunni sem hafnar í stönginni sofnar Johnny Boychuk á verðinum í Bruins-vörninni og Dave Bolland laumar sér fram hjá honum og skorar þegar sirka mínúta er eftir. Ótrúlegt. Og það sem er eiginlega ótrúlegra er að fjórða línan spilaði nánast ekkert í leiknum, sérstaklega Bolland. Fyrsta lína (Kane-Toews-Bickell) spilaði mjög mikið, önnur lína (Hossa-Handzus-Sharp) spilaði helling, þriðja lína (Stålberg-Shaw-Saad) spilaði eitthvað soldið en fjórða lína (Krüger-Bolland-Frolik) spilaði eiginlega ekki neitt. Helst var það að Krüger og Frolik kæmu inn á þegar Hawks voru manni færri. Þetta gerir allt saman það að verkum að Bolland er mjög óvænt hetja. Fyrir leikinn hefði hann talist það en eftir þennan leik er hann ennþá óvæntari hetja. Og tímabilið er allt í einu búið.
0 notes
hokkieyjan · 11 years
Text
Skrítið sport
Hokkí er stundum skrítið sport. Úrslitakeppnin í NHL í ár er þar engin undantekning. Boston Bruins eru komnir í lokaúrslit eftir að hafa rétt svo sigrast á Leafs í fyrstu umferð. Þeir voru 40 sekúndum frá því að detta út, og voru raunar 3-1 undir þegar seinasti leikhlutinn var hálfnaður, en höfðu á endanum sigur í framlengingu eftir að hafa jafnað 40 sekúndum fyrir leikslok.
Það er ýmislegt skrítið við þetta. Fyrir það fyrsta komust Leafs í úrslitakeppnina, eftir að hafa aldrei komist milli lockoutanna 2005 og 2012. Þeir slefuðu heldur ekki bara inn í úrslitakeppnina, heldur höfnuðu þeir í fimmta sæti! Kannski skipti svona miklu að skipta um þjálfara. Kannski náði hópurinn loksins almennilega saman. Kannski gerði ráðning á nýjum framkvæmdastjóra gæfumuninn. Kannski héngu þeir svona hátt uppi vegna þess að tímabilið var 48 leikir en ekki 82. Kannski blómstraði sóknarleikurinn í kjölfar þess að loksins fannst fyrstu línu senter, Tyler Bozak. Kannski hjálpaði helling til að Dion Phaneuf fann sig sem shutdown varnarmaður (Carlyle lætur hann frekar byrja inn á þegar faceoffið er við markið hjá Toronto). Líklega var það þó samspil þessara þátta sem skilaði þeim fimmta sæti, ásamt slæmu gengi sumra annarra sterkra liða, auk þess hversu jöfn deildin er eftir allt saman. Launaþakið og nýliðavalið gera það að verkum að liðin verða yfirleitt öll ákveðið sterk og svo sum lið aðeins sterkari. Ef það fer saman við styttra tímabil þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að smávægileg mistök eða slæmir stuttir kaflar geta gert út um playoff-vonir eða góðir kaflar tryggt það.
Annað sem var skrítið var að Bruins áttu í miklum erfiðleikum með Leafs, sem þeir hafa iðulega bara labbað yfir á undanförnum árum. Þeir hafa haft Leafs í vasanum, sem er út af fyrir sig ekki skrítið miðað við almennt gengi þessara liða undanfarin ár. Ef það er hinsvegar eitthvað sem hefur sannast í úrslitakeppninni að þessu sinni þá er það það að Bruins eru afar köflóttir. Í deildakeppninni áttu þeir mjög góða kafla og frekar slæma kafla en enduðu að lokum í fjórða sæti. Leafs hafa spilað vel á tímabilinu og fóru í sjö leiki gegn þeim og voru 40 sekúndum frá því að slá Bruins út. Bruins létu hinsvegar til sín taka þegar á þurfti að halda og unnu ótrúlegan sigur. 
Annað skrítið við þann leik var að Randy Carlyle tók ekki leikhlé á ögurstundu. Af hverju notaði hann ekki leikhléð sitt þegar Leafs voru að missa móðinn og Bruins höfðu allan meðbyr í heiminum með sér? Hann hefði að minnsta kosti getað reynt að fá ró í sitt lið. Hann tapar ekki á því að tala við sína menn á lykilstundu. Bruins tóku þetta hinsvegar og það fór sem mig grunaði eftir þann leik, björninn var vaknaður og fór létt með Rangers. Það kom líka í ljós þá að Rangers voru engan veginn tilbúnir í að takast á við bestu liðin, enda með engan sóknarleik til að tala um. Brad Richards var t.d. svo lélegur að hann fékk ekki einu sinni að spila fimmta leikinn, sem reyndist þeirra seinasti. 
Það sem kom hinsvegar meira á óvart var þessi þvílíka upprúllun sem átti sér stað í úrslitum Austurdeildarinnar. Penguins mættu líklega nokkuð vel stemmdir til leiks en líklega urðu þeim að falli þau veikleikamerki sem þeir sýndu á móti Islanders. Þar fengu þeir slatta af mörkum á sig og neyddust til að skipta um markmann í miðri úrslitakeppni (sem er aldrei gott). Vokoun leysti Fleury af hólmi og kláraði seríuna á móti Islanders nógu vel til að koma Penguins áfram.
Á móti Senators var Vokoun síðan nógu góður til að fleyta Pens áfram meðan sóknarleikurinn gekk eins og smurð vél (markamaskína) en þegar þeir mættu Bruins var eins og væri skrúfað fyrir vatnið. Powerplayið gat ekki neitt og liðið skoraði einungis tvö mörk í fjórum leikjum. Varnarleikur Penguins var við það sama og í fyrri seríum, ekki sérstaklega öruggur (Letang spilað t.d. hörmulega á móti Bruins) en þegar sóknarleikurinn hætti að tikka varð títtnefndur varnarleikur þeim að falli. Vokoun gat ekki stolið heilu leikjunum á sama hátt og kollegi sinn í Bruins markinu, Tuukka Rask. Penguins fengu áfram á sig svolítið af mörkum, en Bruins spiluðu nægilega góðan varnarleik til að koma í veg fyrir markaflóðið sem hafði fleytt Pens áfram í fyrstu tveimur umferðunum. Það er líklega auðvelt að sjá þetta núna en meðan þetta allt saman var í gangi hugsaði maður bara "hvað er eiginlega í gangi?" því Pens höfðu spilað vel, bæði í deilda- og úrslitakeppninni. Þeir litu út fyrir að enginn gæti stöðvað þá í Austrinu og að þeir myndu mæta Hawks í lokaúrslitum en annað kom á daginn. Bruins hreinlega völtuðu yfir þá. Pens áttu ekki séns (sorrí) og Bruins mættu með kústinn. Það hefði líklega þurft sameinað átak frá sóknarleik Pens og varnarleik Rangers til að stoppa Bruins, sem voru algjörlega upp á sitt besta í þessari síðustu seríu.
0 notes
hokkieyjan · 11 years
Text
Devils á markaðnum í sumar
Þar sem maður hefur alltaf áhyggjur af liðinu sínu þegar ekki gengur vel tók ég saman lista (sjá neðar) af þeim leikmönnum sem eru samningslausir í sumar og gætu mögulega samið við Devils og gert eitthvert gagn. Ég tók ekki með leikmenn eins og Selänne, Alfredsson og Gonchar, sem munu semja við núverandi lið sín ef þeir taka fleiri tímabil í NHL. Devils liðið þarf klárlega að bæta sig til að ná árangri í þessum erfiða riðli sem bíður þeirra með tilkomu nýrrar riðlaskiptingar. Auk góðkunningjanna úr Atlantshafsriðlinum mæta Devils nú jafnoft Canes, Caps og Jackets. Þeir síðastnefndu hafa bætt sig og munu halda því áfram undir stjórn Johns Davidsons og Jarmo Kekäläinen. Caps eru alltaf sterkir. Canes eru hinsvegar meira spurningamerki, þeir gátu t.d. eiginlega ekki neitt á síðasta tímabili þrátt fyrir að hafa bætt við sig Jordan Staal og Alex Sjömin. Árangur Devils á yfirstandandi tímabili var ekki neitt til að hrópa húrra fyrir eftir svona fyrstu 10-15 leikina og ekki bætir úr skák að Patrik Elias, David Clarkson, Marek Zidlicky, Dainius Zubrus, Alexei Ponikarovsky og fleiri eru allir samningslausir í ár og framlengja þarf samninga við Andrei Loktionov, Adam Henrique og fleiri. Poni verður ekki forgangsatriði hjá Lou, en það verða Henrique, Elias, Clarkson og Zidlicky, spurning með Zubrus. Ég hef svo sem ekki hugmynd með Zidlicky en ég veit að eftirspurnin eftir Clarkson er mikil. Lið eins og Leafs, Oilers og Flyers hafa verið orðuð við hann og hann á eftir að græða vel, hvort sem hann verður áfram hjá Devs eða ekki. Af öllum fríherjum þessa sumars hjá Devils finnst mér líklegast að hann yfirgefi liðið. Ef Elias heldur áfram verður það líklegast hjá Devils, og hann hefur ekkert gefið út um að hann ætli sér að hætta. Ef Clarkson fer (sem er allt eins líklegt), hafa Devils misst á skömmum tíma þrjá drjúga sóknarmenn, Parise, Sykora og Clarkson og enginn hefur í raun tekið þeirra sæti. Ef við segjum að Clarkson og Poni fari og enginn annar framherji sem ég hef talið upp hér, gætu línurnar að óbreyttu litið svona út fyrir Devils fyrir næsta tímabil: Kovy-Zajac-Henrique Elias-Loktionov-Zubrus Carter-Gionta-Bernier Matteau-Josefson-Barch Aukamenn: Pesonen, Kostopoulos Þetta er ansi þunnt og ekki mjög "sexý". Fáir sem hafa sannað að þeir geti skorað eitthvað mikið, enda sást það á þessu tímabili. Það vantaði ekki skotin og pressuna að marki andstæðinganna, en það vantaði sárlega að klára færin. Ekki eiga Devils marga unga og efnilega sóknarmenn í kerfinu sínu en þó má binda einhverjar vonir við stráka eins og Reid Boucher og Blake Pietila. Þeir koma hinsvegar líklega ekki strax til Jersey. Það þyrfti því að bæta liðið með treidum eða með því að semja við fríherja. Lou gæti treidað og fengið sóknarmenn fyrir einhverja af varnarmönnunum sínum. Nóg er af þeim, bæði í Jersey og í kerfinu. Skoðum þá fríherjalistann: markmenn: Smith Emery
varnarmenn: Streit Scuderi Ference Rozsival
sóknarmenn: Iginla Ribeiro Jagr Cooke Torres Bozak Dupuis Brunner Boyes Stålberg Morrow Horton Clowe Penner Weiss Filppula Hér eru flestir sóknarmenn, enda er sókn það sem Devils vantar helst, auk þess sem mest er af framherjum á markaðnum í sumar (af virkilega góðum leikmönnum). Byrjum hinsvegar á markmönnunum. Ég tók þarna þá tvo sem mér leist best á en ég geri mér grein fyrir að Mike Smith kemur aldrei til Jersey meðan Broddi er í markinu, til þess er hann einfaldlega of góður. Hann er ekki að fara í lið til að vera varamarkmaður. Ray Emery gæti hinsvegar verið góður kostur miðað við spilamennskuna á þessari leiktíð, flottur markmaður #2 sem er óhætt að treysta á, ólíkt Hedberg í ár, því miður. Það má hinsvegar ekki gleyma því að bæði Emery og félagi hans í Chicago, Corey Crawfordv (sem nú fer hamförum í úrslitakeppninni), voru algjör brandari á seinasta tímabili og því óvíst hversu góðir þeir reynast. Ef Emery er hinsvegar jafngóður og núverandi tímabil gefur til kynna væri hann mjög góður kostur. Broddi spilar áfram eitthvað en hættir innan örfárra tímabila. Þegar að því kemur getur Emery verið góður til að spila slatta af leikjum meðan Devils athuga hvort einhverjir af markmönnunum í Albany eða almennt í kerfinu geti tekið við keflinu af Brodda til lengri tíma. Vörnin er smá spurning, ég er allavega þeirrar skoðunar að það væri hæglega hægt að bæta hana. Vörnin hjá Devils er svona meh, ekki slæm en enginn stórkostlegur leikmaður þar heldur. Maður bindur þó vonir við að Devils hætti að fara illa með Adam Larsson, svo hann geti uppfyllt þær væntingar sem gerðar eru til hans sem #4 úr draftinu 2011. Það eru hinsvegar ekki margir varnarmenn á lausu sem myndu raunsætt á litið bæta vörnina hjá Devils. Best væri að stela Scuderi frá Kings og Ference frá Bruins en mér finnst raunsærra að Streit eða Rozsival væru til í að koma. Hvort þeir bæti vörnina mikið er þó óvíst. Þá er það helsta málið, sóknin. Í fyrsta lagi finnst mér smávegis þörf á því að buffa aðeins upp sóknarlínurnar, sérstaklega ef Clarkson fer. Við höfum þarna slagsmálahunda eins og Kostopoulos og Barch en mér finnst vanta líkamlega sterkari framherja almennt. Kovy getur slegist við hvern sem er en hann er stærsta stjarnan og liðið tapar bara á því að hann sinni slagsmálum. Þarna eru nokkrir möguleikar fyrir hendi, misraunsæir þó. Iginla væri væntanlega tregur til að fara til Jersey, en hann fer líklega bara í annað lið sem getur raunsætt á litið unnið titilinn á næsta tímabili, ef Pens gera það ekki núna. Hugsanlega verður hann áfram þar. Nathan Horton er stór og sterkur, en það er spurning hvort hann vill fara frá Boston til Jersey, sérstaklega ef Bruins vinna titilinn aftur. Ryane Clowe og Dustin Penner eru dálítið spennandi kostir, sér í lagi vegna þess að þeir gætu virkilega samið við Devils. Stórir og sterkir, og líka leikmenn sem geta skorað. Clowe vonandi endurnærður af því að hafa farið í Austurdeildina. Síðan væri líka hægt að gera atlögu að Matt Cooke eða Raffi Torres, en þeir eru leikmenn sem maður fílar bara ef þeir eru í liðinu manns. Báðir snöggir á skautunum og geta sinnt ruslakallahlutverkinu, en geta þrátt fyrir almannaróminn gert hluti á ísnum með pökkinn. Best væri að fá 1-2 af þessum og svo tvo framherja með meira "skill". Af þeim virðist líklegast að Lou væri til í að fá "low-profile" gaura, enda hefur það alltaf verið mottóið hjá Lou, enginn leikmaður er stærri en klúbburinn. Á markaðnum eru nokkrir ungir/unglegir og upprennandi sem gætu farið í nýtt lið í sumar. Af þeim líst mér best á Damien Brunner hjá Red Wings, Tyler Bozak hjá Leafs, Stephen Weiss hjá Panthers og Viktor Stålberg hjá Hawks. Weiss fer eiginlega pottþétt frá Panthers og með hann í hópnum yrði töluverð breidd í einni mikilvægustu stöðunni, senternum. Þá væru Devs með Zajac, Henrique, Elias og Weiss, fjóra solid sentera (þó Elias og Henrique spili ekki endilega þar í hverjum leik), auk fleiri, t.d. Stefans Matteau. Bozak er líka senter, en það hlýtur að verða forgangsmál hjá Leafs að semja við fyrstu línu senterinn sinn.  Stålberg spilar síðan hægra megin og Brunner vinstra megin og ef þeir og Weiss kæmu hefðu Devils heila nýja línu og CBGB-línan gæti aftur orðið fjórða lína, og breiddin í liðinu væri orðin ansi mikil. En það er miðað við að allir þessir gaurar komi og fáir fari burt í staðinn og við skulum vera alveg hreinskilin, þar er ólíklegt. Devils þekkja það vel að missa stóra leikmenn á frjálsri sölu og eins og fríherjamarkaðurinn verður í sumar (grimm samkeppni um hvern einasta leikmann sem getur eitthvað) eru aldrei allir þessir leikmenn að fara að semja við Devils. En maður getur látið sig dreyma.
1 note · View note
hokkieyjan · 11 years
Text
Hugleiðingar um leiki kvöldsins hingað til
Chicago Blackhawks sigruðu Nashville Predators 1-0 á útivelli
Þegar ég settist niður í sófann til að glápa á íshokkí núna kl. 19 í kvöld voru tveir leikir í boði. Annars vegar þessi leikur og hinsvegar leikur Winnipeg Jets og Philadelphia Flyers í Winnipeg. Fyrst ætlaði ég að horfa á leikinn í Nashville en hugsaði síðan að líklega yrðu fleiri mörk í austurdeildarleiknum. Það endaði þó með því að ég fór að horfa á Nashville leikinn þar sem hann byrjaði eilítið fyrr.
Ég reyndist sannspár með mörkin, þessi leikur endaði með 1-0 sigri og það fór eins og ég hugsaði fyrir leikinn, "Preds, já þeir náttúrulega skora aldrei". Blackhawks hafa reyndar verið með skemmtilegri liðum að horfa á en þeir vinna samt sem áður oft í leikjum með lágu skori, eins og virðist vera reglan í Vesturdeildinni, þar sem hátt hlutfall leikja fer í framlengingu og jafnvel vító. Það er eins og þjálfararnir í vestrinu séu varkárari en kollegar þeirra austan megin og leikir hjá liðum eins og Preds, Coyotes, Flames, Avs og Kings eru ekki líklegir til að verða markasúpur (nema hvað að á þessu kolgeggjaða skrítna tímabili unnu Coyotes 7-4 sigur á Preds um daginn, eftir að hafa skorað 7 mörk í næstu 8 leikjum á undan).
Það er því líklega ekki sérlega merkilegt að Preds hafi ekki skorað í þessum leik, sérstaklega ef litið er til þess hversu skelfilegt powerplayið þeirra er. Í þessum leik fengu þeir nokkur tækifæri einum fleiri, þar á meðal 4ra mínútna tvöfalt powerplay þegar Dan Carcillo rak kylfuna í andlitið á Shea Weber og blóðgaði hann en Preds náðu ekki einu einasta skoti á mark á þessum fjórum mínútum! Eina markskotið á þessum kafla átti Jonathan Toews fyrir Chicago.
Eftir leikinn eru Preds í 19. sæti með 17,4% powerplay nýtingu. Í þeim powerplayum sem ég sá í þessum leik virkuðu þeir hugmyndasnauðir og klassa neðar en Hawks, sem náðu hvað eftir annað að hreinsa með stuttu millibili. Í þau fáu skipti sem Preds náðu að stilla upp í sóknarsvæðinu virkuðu þeir bara ekkert ógnandi og maður hafði aldrei á tilfinningunni að þeir væru nokkurn tímann að fara að skora. Ef Preds fara í úrslitakeppnina fara þeir ekki lengra en í fyrstu umferð.
Jets-Flyers 4-1
Talandi um að komast í úrslitakeppni en fara ekki lengra. Í Winnipeg mættust tvö svoleiðis lið. Flyers hafa verið arfaslakir en eru samt e-a hluta vegna ennþá inni í myndinni með það að komast í úrslitakeppnina. Ef þeir komast þangað verða þeir líklega fallbyssufóður fyrir nágranna sína í Penguins (þó að Flyers séu eina liðið sem getur einhvern veginn alltaf átt séns gegn Pens, sama hvernig staðan er í deildinni) eða þá Bruins eða Habs.
Varnarleikurinn er alltof slakur og markvarslan eftir því, og Bryz auðvitað óútreiknanlegur í markinu, frekar á slæman hátt en góðan. Ekki bætir úr skák fyrir þá að Bobrovski blómstraði um leið og hann komst burt þaðan, á meðan Jackets sendu þeim markmann til baka í staðinn sem hefur nákvæmlega ekkert getað síðann hann var nýliði ársins fyrir tímabilið 2008/9, eina skiptið sem Jackets hafa komist í úrslitakeppni hingað til en Ken Hitchcock þjálfaði liðið þá, nota bene.
Varnarleikurinn er kannski ekki síst slakur fyrir þá sök að meiðslavandræði hafa hrjáð Flyers eins og plágan og uppstillingin í vörninni hefur verið jafn misjöfn og veðrið hverju sinni. Matt Carle fór auðvitað í Tampa eftir síðasta tímabil og Chris Pronger spilar líklega aldrei aftur íshokkí. Flyers hafa reynt að stoppa í götin, vildu t.d. fá Keith Yandle frá Coyotes áður en glugginn lokaði núna á miðvikudaginn en samningar tókust ekki við Coyotes. 
Winnipeg Jets náðu með sigrinum hinsvegar að hoppa upp í 3ja sætið, úr því tíunda! Það er eiginlega vandræðalegt hversu lélegur þessi Suðausturriðill er, þegar efsta liðið kæmist ekki í úrslitakeppnina ef ekki væri fyrir playoffsætið sem fæst sjálfkrafa fyrir að vinna riðilinn, annars óháð stigafjölda. Ein ástæðan er líklega varnarleikurinn, ef hægt er að kalla hann það. Leikir liða í Suðausturriðlinum eru oftar en ekki fjörugir og jafnvel markasúpur og því skemmtilegir áhorfs en árangurinn helst greinilega í hendur við varnarleikinn. Jets munu líklega mæta öðru Kanadaliði, Leafs eða Sens ef þeir vinna riðilinn og ekki þykir mér líklegt að þeir ríði feitum hesti frá þeirri viðureign. Það virðist hinsvegar öllu líklegra að Caps geti gert betur ef þeir ná toppsætinu af Jets.
1 note · View note
hokkieyjan · 12 years
Video
Skrautlegt sjálfsmark í sænsku deildinni
youtube
11 notes · View notes
hokkieyjan · 12 years
Text
Einmitt fyrsti pósturinn hér í langan tíma.
En NHL Ísland er komið á Facebook og þar er ýmislegt að gerast
Trying to keep a hockey blog during the lockout
Tumblr media
6 notes · View notes
hokkieyjan · 12 years
Photo
Ég veit þetta blogg heitir NHL Ísland en ekki KHL Ísland en hvað annað á maður að tala um?
Tumblr media
126 notes · View notes
hokkieyjan · 12 years
Video
youtube
Hver gæti gleymt því þegar Islanders settu 5 varnarmenn inn á í einu?
0 notes
hokkieyjan · 12 years
Photo
Tumblr media
Gleðilegt lokkát, krakkar.
0 notes
hokkieyjan · 12 years
Photo
Tumblr media
Viðbrögð Rons Maclean þegar Don Cherry afskrifaði metrakerfið sem "commie stuff"
0 notes
hokkieyjan · 12 years
Video
youtube
Darcy Hordichuk vs Mel Angelstad
Þetta er alvöru.
0 notes
hokkieyjan · 12 years
Link
Þó ekki Pittsburgh Penguins...
2 notes · View notes
hokkieyjan · 12 years
Link
0 notes