undirsud
undirsud
Undir súð
11 posts
Íbúðin undir súðinni er fullkomin, eða nei, næstum fullkomin. Hér verður hægt að fylgjast með flutningnum, lagfæringum og öllu fallega dótinu sem við munum sanka að okkur og fylla íbúðina með. Ó já, og svo auðvitað öllum þeim dýrindis mat sem við ætlum að gúffa í okkur.
Don't wanna be here? Send us removal request.
undirsud · 12 years ago
Text
▴ nýr sófi ▴
Ég keypti gamla sófann minn á Barnalandi árið 2007 fyrir heilar 7000 kr. Hann var mjúkur, ljúfur og tryggur vinur. Það var gott að borða í honum, liggja í honum, sitja í honum og skrifa ritgerðir í honum. Hinsvegar eftir 5 og hálft ár af stöðugri notkun var rassafarið mitt bara orðið of áberandi í honum.
 Mig langaði í gráan sófa, 3ja sæta, ekki með tungu (það passar ekki alveg í stofuna) og helst stunginn. Gekk leitin vel? Nei. Í fyrsta lagi virðist vera rosalega erfitt að finna stungna stófa á Íslandi, allavegana eins og ég hafði í huga. 
Í öðru lagi fannst mér öll gráu áklæðin sem að ég sá of dökk eða of ljós já eða með of miklum brúnum tón. 
Höfuðverkur.
  Þegar verst lét þá var ég farin að íhuga að panta sófa af netinu (Crate & Barrel sendir til Íslands btw.), sendingarkostnaðurinn yrði örugglega ekkert það mikill? Eða kannski jú. Klikkuð pía.
Loksins fann ég þó rétta sófann. Ég sá hann í Habitat rétt fyrir jól og svo þegar ég kom aftur í janúar var hann á útsölu, húrra! Það var bara eitt stykki eftir svo að ég varð að ákveða mig á staðnum. Sem var eins gott, annars hefði ég örugglega byrjað að efast um val mitt og sæti núna ennþá í gamla sófanum mínum, sokkin vel ofan í rassafarið.
Sófinn heitir Chester og fæst í hinum ýmsu stærðum og gerðum. Minn er þriggja sæta með dökkgráu ofnu áklæði sem ég held að fáist ekki lengur. Hann er reyndar ekki stunginn en ég varð bara að fórna einhverju.
Taaadaaa, nýr sófi! Mig langar reyndar til þess að skipta um fætur á honum. Held að það myndi létta mjög mikið yfir sófanum og stofunni allri ef að þær væru ljósar. Veit einhver hvort að fæturnir frá Superfront passa undir sófa frá öðrum framleiðendum en IKEA?
1 note · View note
undirsud · 14 years ago
Text
Ugla sat á kvisti
Þetta krútt flutti inn um daginn. Hann er hér um bil eini fuglinn sem ég er ekki skíthrædd við enda er hann svo mikið rassgat. Svo er hann líka góður í því að geyma lykla og sjá í myrkri.
Tumblr media
5 notes · View notes
undirsud · 14 years ago
Text
Yfirhalning á skemli - GÞS (gerðu það sjálfur)
Þegar ég átti að vera að skrifa ritgerðina mína gerði ég margt sem að ég átti ekki að vera að gera, þar á meðal kaupa skemil á uppsprengdu verði á internetinu. Karlpeningurinn á heimilinu var búinn að kvarta sáran yfir því að hafa engan stað til að hvíla táfýlutær á þegar þeir hlömmuðu sér í sófa og stóla og að sjálfsögðu geri ég allt sem þeir biðja mig um...  
Tumblr media
Það var búið að bera á viðinn þegar við sóttum skemilinn en áklæðið var frekar sjúskað og stakk mjög mikið, þannig að afmeðþað!
Tumblr media
Svampurinn undir áklæðinu var ágætur og þá í merkingunni ágætt lala en ekki ágætt er betra en gott, en það var vel hægt að nota hann enda erum við ekki það færir bólstrarar að einhverjar svampaðgerðir hefðu verið góð hugmynd.
Tumblr media
Við sniðum áklæðið (sem er í raun gömul gardína úr Góða hirðinum sem kostaði 450 kr.) lauslega eftir gamla áklæðinu en þar sem að nýja áklæðið var hvítt ákváðum við að hafa það tvöfalt. 
Ég vildi hafa tölu á miðjum skemlinum þannig að ástmaður boraði 2 göt í plötuna til þess að hægt væri að þræða tvinnann (tvinninn var í raun sláturgarn) úr tölunni þar í gegn og strekkja á. Ég festi töluna með því að stinga fyrst í gegnum botninn neðan frá, síðan festi ég töluna vel bara í efnið (ekki plötuna og svampinn) og stakk svo nálinni í gegnum hitt gatið á plötunni, togaði vel í báða spottana og batt rembihnút. Ég klippti loks tvinnann og heftaði endana við plötuna. Ástmanni fannst það mikill óþarfi en ég var orðin ansi heftiglöð þegar þarna var komið sögu.
Ég mæli með að gera þetta áður en að áklæðið er heftað fast.
*Athugið að mjög mikilvægt er að nota heftibyssu sem er í stíl við töluna*
Tumblr media
Svo var bara að hefta og strekkja (en ekki of mikið), brjóta hornin fallega og rífa upp hefti og hefta aftur. Ég var löt og gerði þessvegna þau mistök að falda ekki efnið og hvað þá sikksakka það sem varð til þess að þegar við vorum búin að hefta hringinn fannst mér þetta ljótt afþví að það voru spottar útum allt og brúnin á efninu mjög ójöfn. Ég missti mig því aðeins í að rífa upp hefti, brjóta uppá efnið og hefta aftur. Sem ég hefði mjög vel getað sloppið við ef ég væri ekki svona löt.
Tumblr media
Útkoman var mjög fín. Við söguðum líka aðeins neðan af fótunum þar sem að stólarnir okkar eru lágir og á þessu heimili eru þægindi ávallt í fyrirrúmi. 
Kostnaður:
Skemill: 5000 kr. 
Efni: 450 kr. 
Tala: 230 kr. 
Allt annað áttum við í ruslahaugnum sem að við köllum geymslu, mig minnir að heftibyssan hafi kostað ekki nema 1000 kr. í Húsasmiðjunni. 
Útkoman: 
Sáttar tær: ómetanlegt.
Tumblr media
3 notes · View notes
undirsud · 14 years ago
Text
omnomnom
Það verður glatt á hjalla í Nóatúninu þegar það verður hafist handa við að baka hverja einustu uppskrift úr þessari frábæru (og án efa bestu) innflutningsgjöf. Takk Ása, Siggi, Þórir og Katla krútt.
Ég sit núna slefandi yfir brownies, pavólum, blondies, skonsum og parmesankexi. En ritgerðin klárar sig ekki sjálf. Halló heimur, sjáumst eftir 2 daga.
0 notes
undirsud · 14 years ago
Text
Þrjár óskir (eða meira svona sjö)
10 dagar eftir af ritgerðarlífi, náttbuxum og ljótu hári. Dagdraumar eru það eina sem ég á þessa dagana....
Tumblr media
1: Harlequin Tea Towel frá ferm LIVING
2: Vendebakken eftir Finn Juhl
3: PH 4/3 eftir Poul Henningsen frá Louis Poulsen 
4: Zig Zag Rug frá Urban Outfitters
5: Sinnepsgulur Cast Iron French Oven frá Le Creuset 
6: Trip Trap skurðbrétti úr tekki! 
7: Teema kaffibolli og undirskál frá Iittala
Þá er ekkert eftir nema að fá vinnu, safna í 10 ár og fara svo í búðir. 
Ég skoðaði húsið hans Finn Juhl fyrr á þessu ári. Ég og ástmaður vorum byrjuð að bera inn kassana þegar að safnvörðurinn fór eitthvað að derra sig. Ekkert má maður. En fyrir áhugaverða og fyrir þá sem hafa gaman af því að pína sig og verða smá bitrir yfir því að eiga bara IKEA húsgögn (já og þá sem eiga leið hjá Danmörku) þá mæli ég með dagsferð til Ordrupgaard. Við tókum með okkur danskt vínarbrauð og Matilde, getur varla klikkað.
Mig langaði mest að stela þessum skúffuskáp, hversu fallegt? Nei ég bara spyr.
Myndin kemur frá Roger Valentin Mandt
1 note · View note
undirsud · 14 years ago
Audio
Ég næ varla andanum fyrir ritgerðarskrifum en ég náði samt að klára Norwegian Wood eftir Haruki Murakami. Það bjargaði nokkurnvegin lífi mínu, allavegana geðheilsu. Svo falleg bók.
0 notes
undirsud · 14 years ago
Text
góð kaup #1
Góði hirðirinn var mjög góður við okkur í dag. 
Tumblr media
Þó að ég drekki það ekki er nauðsynlegt að geta boðið gestum uppá kaffi, ekki verra ef að því er hellt úr Stelton hitakönnu sem kostaði 2000 kr. og í fullkomnu ásigkomulagi. Húrra! Mig langar samt ennþá svolítið í þessa. 
Tumblr media
Ástmaður fann ritvél á 950 kr., virkar l��ka svona fínt. Hann ætlar að sitja uppi á lofti og skrifa til mín ástarbréf.
Annað sem lenti í körfunni voru fjórar desertskálar til viðbótar við þær sjö sem að ég átti, núna mega því 11 manns koma í eftirmat, samt ekki í aðalrétt afþví að ég á ekki nógu marga diska. Spiderman, krukkur og Erró bók. Ég elska Góða hirðinn. 
Tumblr media
Ein gömul úr símanum frá því að ég keypti fyrstu skálarnar. 
Hver vill að koma í kaffi og köku?
0 notes
undirsud · 14 years ago
Text
Þunnir málarar...
...eru betri en engir málarar og eiginlega bara bestir. 
Tumblr media
Við (og þá meina ég strákarnir) byrjuðum á loftinu. Málarinn var búinn að segja við þyrfum að grunna eina umferð og líklega mála tvær umferðir yfir hann. Hann reyndist hafa rétt fyrir sér. 
Tumblr media Tumblr media
Við notuðum blandaðan alkýðolíu og akrílgrunn á loftið, Interiør grunnmálning frá Flügger.
Tumblr media
Eftir grunnumferðina tókum við listana niður, sáum fram á að það kæmi mun betur út að mála alveg undir listann og mála þá sér (ég fékk það verkefni, enda þarf maður ekki mikla líkamsburði til að sitja á gólfinu og mála loftlista)
Á myndinni hér að ofan geta glögg augu séð muninn á bara grunni og grunni + ein umferð af málningu. 
Tumblr media
Á loftið notuðum við Flutex 2S plastmálningu frá Flügger, það fóru ekki nema 5 lítrar í báðar umferðirnar og nægur afgangur í næstu framkvæmdir. 
Við náðum að grunna og mála eina umferð daginn sem að ég fékk afhent, auk þess að við rúlluðum létt yfir veggina í stofunni og herbergjunum. Seinasta umferðin varð að bíða þar til daginn eftir enda allir orðnir þreyttur og langur dagur framundan. 
Rétt áður en að flutningabíllinn rann í hlaðið var síðustu málningunni slett á loftið og listarnir settir upp aftur. Fullkomnunarsinninn faðir minn tók svo ekki annað í mál en að kíttað væri meðfram öllum listum og ofan í öll naglaför (og málað eina umferð á listana í lokin) og það gerði gæfu muninn. Í öllum hamaganginum misfórst þó að ná myndum af loftinu áður en að kíttisprautan fór á loft svo að þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi að það skipti sköpum. 
Tumblr media
Þetta er best "eftir" myndin hingað til af loftinu (það er búið að vera svo margt í gangi að loftmyndatökur sitja á hakanum). Dót útum allt of allt í drasli. 
Tumblr media
Það reyndar glittir í fallega loftið mitt á þessari mynd svona ef að manni tekst hið ómögulega, að taka augun af bangsa Baldri sem er fallegri en nokkurt loft, líka þegar hann grætur.
0 notes
undirsud · 14 years ago
Text
Kampavín og túlipanar
Klukkan 13:10 á föstudaginn var, 1. apríl, fékk ég lyklana afhenta. Pizza, kampavín og túlipanar og svo var hafist handa við að mála. 
Tumblr media Tumblr media
Loftið í stofunni var panellagt og ómálað, það átti þó allt eftir að breytast á næsta sólahring. 
Tumblr media
Eldhúsið fær að vera eins og það er til að byrja með, ég get þó ekki sagt að mér líki vel við þessar flísar, bleikgrágubba. Það er margt sem að mig langar að gera en eldavélin er með 4 hellum og ofni sem virkar og ísskápurinn er stærri en skókassi svo ég get ekki kvartað. 
Tumblr media
Svo er líka smá búr sem skemmir ekki fyrir. 
Tumblr media
Baðherbergið er í mjög góðu ásigkomulagi enda tiltölulega nýbúið að endurgera það, eina sem vantar er almennileg handklæðaslá og sturta, en því verður kippt í lag á næstu dögum. 
Tumblr media
Að lokum má ekki gleyma háaloftinu, þar var líka skálað. 
Tumblr media
0 notes
undirsud · 14 years ago
Text
Skrifborð og súkkulaði(s)æta
Gísli Einarsson ætlar að hitta félaga í Kótilettufélagi Íslands í Landanum í kvöld, hvernig stendur á því að mér hefur ekki verið boðin innganga í þetta gómsæta félag? Nei ég skil það ekki heldur.
Eftir dásemdar sunnudagshádegi með bestu BB, LEA og BF og smá lærdóm tók ég mig til og gerði mitt besta til að lappa uppá forláta skrifborð sem mér áhlotnaðist þegar móðursystir mín var að tæma íbúðina hans Arreboe heitins.
Tumblr media Tumblr media
Miðað við að það fannst undir gömlu dóti og drasli inni í bílskúr þá leit það furðu vel út, ég þurfti bara aðeins að plokka burtu nokkra gamla Mikka Mús límmiða, þrífa það vel og olíubera. 
Til að ná límmiðunum af er best að bera vel af viðarolíu (ég notaði tekk olíu) á límmiðann og láta liggja í smá stund, þá er lítið mál að kroppa þá af. 
Tumblr media
Ég held að skrifborðið fái heiðurssess í nýja eldhúsinu og verði hlaðið matreiðslubókum, minnismiðum og þegar andinn kemur yfir mann, saumavélinni. 
Titillinn á póstinum lofar súkkulaði, gjörðusvovel!
Eftir að hafa starað á þessa uppskrift tímunum saman undanfarna mánuði ætla ég loksins að skella í blondies. Ég held að ég setji 70% súkkulaði, suðusúkkulaði, hvítt súkkulaði, möndlur og pekanhnetur í deigið, er það nokkuð að ofgera hlutunum? Nei ég hélt ekki.
Vonandi belgir ástmaðurinn sig ekki of út af poppi og kók í bíó og hefur lyst á að smakka þegar hann kemur heim.
Verði mér að góðu...
Bætt við:
Blondínurnar voru unaðslegar, ég á enþá smá bita eftir sem ég er að spara og það lá við að það kæmi til slagsmála á heimilinu í gær þegar það barst út að ég ætti falinn mola einhverstaðar. Ég ákvað því að henda inn uppskriftinni á íslenskan máta svo allir geti nú dáið smá af smjöri, sykri og súkkulaði. 
8 msk. brætt smjör
2.3 dl. púðursykur
> þeytt saman þar til mjúkt og aðeins ljósara en til að byrja með
1 egg
1 tsk. vanilludropar (það er aldrei verra að nota of mikið af vanilludropum)
> þeytt saman
2.3 dl. hveiti
1 tsk. salt
> hrært saman við
Að lokum er bætt við eins miklu af súkkulaði, hnetum eða bara hverju sem er og hver vill. Bakað við 180 gráður (allavegana í mínum ofni en hann er nú ekki neitt til að hrópa húrra yfir) í 20-25 mín. Ekki er verra þótt kakan sé smá blaut í miðjunni. 
Ath. að þetta er frekar lítil uppskrift (mest handa 4 sem eftirréttur) og passaði vel í form sem er 21 cm í þvermál, ef það er mikið stærra verður kakan of þunn. 
❊ elf ❊  
0 notes
undirsud · 14 years ago
Text
Nóatún 29
3. mars skrifaði ég undir kaupsamning að íbúð. Yndislegri, svolítið lítilli, risíbúð í 105. Ég var búin að skoða mjög margar íbúðir en allar voru hálf ómögulegar eða hreint út sagt ógeðslegar. En um leið og ég steig yfir þröskuldinn "heima" þá fann ég að þetta væri íbúðin. 
Tumblr media
Ég mun þó ekki sitja ein um dýrðina, Ég, Elfa, ástmaðurinn Friðgeir og bróðirinn Egill ætlum að búa þarna saman í sátt og samlyndi (vonandi) og fáum afhent 1. apríl (já þú mátt hjálpa okkur að flytja og mála). 
Tumblr media
Þetta er húsið mitt, þarna bak við tréið mitt.
Það eru nákvæmlega 3 vikur þangað til að við flytjum inn. 
 ❊ elf ❊  
0 notes